Fínlegir og fagrir bútar úr fortíð
Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi kallast „Bútar úr fortíð“ og var formlega opnuð í gær. Það mun vera Íris Ólöf Sigurjónsdóttir sem á heiðurinn af sýningarmunum, sem inniheldur fínlega og fagra listmuni samsetta úr ýmsum efnisbútum sem hafa verið í fórum hennar og fjölskyldu hennar allt aftur til 19. aldar.
Íris Ólöf hefur haft áhuga á textíl frá unga aldri og hefur það haft áhrif á val hennar starfsvettvangi en ásamt því að vera textíllistamaður er hún textílforvörður og starfar sem forstöðumaður Byggðasafnsins á Dalvík.
Að sögn Írisar Ólafar liggur heilmikil vinna á bak við verkin eða um 380 klukkustundir og fékk almenningur loks að njóta afraksturs þeirra vinnu í gær.
Elín S. Sigurðardóttir, forstöðukona Heimilisiðnaðarsafnsins og Íris Ólöf opnuðu sýninguna í sameiningu. En við tilefnið tóku Íris Ólöf og eiginmaður hennar, Hjörleifur Hjartarson úr dúettinum Hundur í óskilum, lagið og vöktum mikla lukku viðstaddra en þangað höfðu fjölmargir lagt leið sína til að vera við opnunina.
Eftir að formlegri dagskrá var lokið var boðið upp á kaffi og kleinur, mjólk og kókómjólk fyrir börnin, eins og oft svo áður hjá Heimilisiðnaðarsafninu. Þá gátu gestir skoðað sýningarmuni, spjallað við Írisi Ólöfu, og notið veðurblíðunnar.
Hér má skoða myndir frá opnuninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.