Feykir á ferð og flugi með Keili

Fulltrúar Flugakademíu Keilis voru stödd á Sauðárkróki í gær að kynna flugnám sem kennt er við Háskólann. Þá stóð Skagfirðingum til boða að koma á Alexandersflugvöll og skoða eina af kennsluflugvélum þeirra og fara í kynnisflug. Feykir notaði tækifærið og fór í flugferð.

Flugakademía Keilis býður upp á fjölbreytt nám í flugtengdum greinum svo sem einkaflugnám, atvinnuflugnám til blindflugsréttinda, flugþjónustunám og nám í flugumferðarstjórn.

„Allir kennarar við skólann eru menntaðir í sínu fagi og miklir reynsluboltar,“ segir Íris og bætir við að það sem Flugakademía Keilis hefur framyfir aðra skóla séu nútíma kennsluaðferðir. Til dæmis eru notast við ipad við kennslu og flugvélarnar eru búnar nýjustu tækni. „Við erum líka með mjög öflugt fjarnámskerfi og nemendur skólans eru því vítt og breitt um landið,“ segir Íris Erla Thorarensen flugmaður og kennari við akademíuna.

Vélin sem notuð er til kennslu heitir Diamond DA-40 Star og er frá árinu 2008. Um er að ræða fjögurra sæta kennslu- og ferðaflugvél með 135 hestafla hreyfli. Vélin er búin fullkomnun blindflugsbúnaði og nútíma flugmælitækjum.

„Þetta eru mjög góðar vélar og það er gott að fljúga þeim – það má segja að þær þessi gerð sé „porche“ flugvélanna,“ segir Íris og útskýrir að tölvubúnaðurinn sem flugvélin býr yfir sé ekki lengur talin tilheyra framtíðinni - heldur nútíðinni.

Hægt er að klára allt námið á tveimur árum, eða eins og Íris orðar það - frá „zero til hero“. Aðspurð um atvinnutækifæri innan geirans segir hún að lægð hafi verið sl. ár en nú sé verið að ráða sífellt fleiri til vinnu, t.d. var Icelandair að ráða ellefu manns en höfðu ekki ráðið neinn í sex ár.

„Nú er besti tíminn til að læra að fljúga og þá að útskrifast þegar sem mest er að gera innan greinarinnar,“ segir Íris og bendir á að stór hluti af náminu er lánshæfur hjá LÍN.

Keilir byrjaði kynnisferðina um landið Ísafirði á mánudag, voru á Sauðárkróki í gær og verða á Húsavík í dag, svo verður stefnan tekin á Egilsstaði.

Hér eru nokkrar myndir sem Feykir tók á flugi yfir Skagafjörð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir