Fallegir munir og notaleg stemning
Árlegur jólabasar var haldinn á Heilbrigðisstofnuninni Hvammstanga í gær en á sama tíma var kaffihúsið „Kaffi Kandís“ opið. Þar var boðið upp á kaffi og smákökur og að sjálfsögðu var til kandís með kaffinu.
Á jólabasarnum var hægt að gera góð kaup á ýmsum prjónavörum, trévörum, dúkum, kertum og kertaglösum ásamt ýmsu fleiru. Samkvæmt Guðrúnu Benónýsdóttur deildarstjóra á heilbrigðisstofnuninni þá hefur basarinn frá upphafi verið haldinn m.a. til að fjármagna félagsstarfið, seldir hafa verið munir sem voru unnir á staðnum af heimilisfólki og dagþjónustugestum.
Einnig voru konur, búsettar á stofnuninni, sem unnu mikið af prjónavörum og fengu þá tækifæri til að selja framleiðsluna annað hvort fyrir sjálfa sig eða gefið til félagsstarfsins. Einnig prýða margir munir, sem heimilisfólk hefur unnið, stofnunina í dag, s.s. dúkar, púðar, myndir og jólaskraut. Ágóði af basarnum og kaffihúsinu rennur til félagsstarfsins m.a. til að fjármagna innkaup á efni fyrir handavinnu- og smíðastofu.
Anna Scheving smellti nokkrum myndum af þeim fallegu munum sem í boði voru á basarnum og fangaði notalegu stemninguna á Kaffi Kandís.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.