Allir í gúddí fílíng á VSOT
Villtir svanir og tófa voru haldnir í Bifröst á Sauðárkróki sl. laugardagkvöld, sem voru hluti af dagskrá Lummudaga sem fóru fram um helgina. Þuríður Harpa Sigurðardóttir var stödd á staðnum og sagði hún tónleikana hafa verið einstaka en þar voru samankomnir ýmsir tónlistarmenn sem flestir áttu það sameiginlegt að vera Skagfirðingar. Hjalti Árnason var einnig staddur á tónleikunum og hér má sjá nokkrar myndir sem hann smellti af á staðnum.
„Einkennandi var afslappað og gleðiskotið andrúmsloft, allir í gúddí fílíng ef svo má að orði komast sem svo sannarlega smitaðist út til áhorfenda. Það er alveg hægt að taka undir orð kynnisins sem taldi að áhorfendur fengju skemmtun fyrir allan peninginn,“ segir Þuríður Harpa.
Fram komu Dætur Satans, sem samanstendur af Þórólfi Stefánssyni, Magnúsi Helgasyni, Gunnari Inga Árnasyni, Guðbrandi Ægi Ásbjörnssyni, Óðni G. Óðinssyni, ásamt svíanum Andreas Bohlin. Ekki má gleyma mæðgunum Sigríði Ingimarsdóttur og Ingunni Kristjánsdóttur sem sungu með.
Hljómsveitin Hvítur hestur var endurvakinn en þeir komu síðast fram fyrir nær 20 árum síðan. Þá hljómsveit skipuðu Ellert Jóhannsson, Ari Sigurðsson, Gestur Guðnason, Sigurður Björnsson, Guðni Friðriksson og Gunnar Ingi Árnason.
Þá opnuðu Funk that Shit! tónleikana en þar eru þrír ungir menn á ferð; Guðmundur Ingi, Reynir Snær Magnússon og Kristján Reynir Kristjánsson.
Contalgen Funeral stigu svo á svið og glöddust áheyrendur þegar þau tilkynntu að diskur væri væntanlegur frá þeim í sumar en það verður þeirra fyrsta breiðskífa.
Palli Friðriks tók Megasarblöndu með miklum tilþrifum, ásamt bræðrunum Arnari og Vigni Kjartanssonum.
Feðgnabandið steig svo á svið en þar voru á ferðinni Ægir Ásbjörnsson og dóttir hans Ása Svanhildur og svo Áskell Heiðar Ásgeirsson, ásamt Bergrúnu Sólu dóttur sinni.
Gillion kom einnig fram og Skottuband Árna Gunnarssonar. Sigfús Arnar Benediktsson spilaði á hin ýmsu hljóðfæri með flestum hljómsveitunum
„Villtir svanir og tófa lokuðu svo frábæru kvöldi. Forsprakkanum Þórólfi Stefánssyni má sannarlega færa þakkir fyrir framtakið en hann hefur staðið fyrir þessum samtíningi skagfirskra tónlistarmanna undanfarin ár, með dyggri aðstoð frá Guðbrandi Ægi Ásbjörnssyni, sem virðist vera að festa sig í sessi sem heilmikil tónlistarveisla,“ segir Þuríður Harpa í lokin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.