Afturelding lögð í gras
Tindastóll/Hvöt tók á móti Aftureldingu á Sauðárkróksvelli í kvöld í 2. deildinni í knattspyrnu. Leikurinn var ekki sérlega tilþrifamikill en það gladdi heimamenn að ná öllum þremur stigunum og hefna þannig ófaranna í fyrri leik liðsins gegn Aftureldingu. Lokatölur urðu 2-1, frábær og mikilvægur sigur og nú er allt í tómu rugli í 2. deildinni.
Það var hlýtt í sunnanstrekkingnum á vellinum í kvöld og það voru gestirnir sem höfðu vindinn með sér í fyrri hálfleik. Þeir hófu leikinn betur en það voru engu að síður heimamenn sem komust yfir með slysalegu marki. Árni Arnarson tók aukaspyrnu af um 30 metra færi og skot hans hafnaði í leikmanni gestanna og sveif í fallegum boga í fjærhornið án þess að markvörður gestanna kæmi nokkrum vörnum við. Eftir þetta jafnaðist leikurinn og heimamenn áttu nokkrar góðar rispur upp völlinn en voru oftar en ekki fullbráðir að slá endahnútinn á sóknir sínar. Leikmenn Aftureldingar bættu í pressuna þegar á leið hálfleikinn og jöfnuðu með fallegu marki þegar um 10 mínútur voru til leikhlés en þá komst Wentsel Steinarr Ragnarsson Kamban á auðan sjó á vinstri kantinum, lék inn á teiginn og lét vaða í fjærhornið. Bæði lið sóttu af krafti eftir þetta en staðan 1-1 í hálfleik.
Síðari hálfleikur var ekki jafn líflegur og sá fyrri og einkum voru heimamenn kraftlitlir framan af. Um miðjan hálfleikinn höfðu stuðningsmenn Tindastóls/Hvatar áhyggjur af því að leikmenn væru við það að sofna inni á vellinum. Leikmenn Aftureldingar náðu upp ágætri pressu og hvað eftir annað skapaðist hætta við mark heimamanna en Gísli markvörður bjargaði vel og fékk svo líka hjálp frá annarri stönginni. Áhorfendur náðu að öskra liðið í gang aftur og leikmenn spýttu í lófana. Nokkuð munaði um á pöllunum að forsöngvari hins bísperrta stuðningsmannahóps Tindastóls/Hvatar var kominn á bekkinn hjá liðinu en kraftar hans hefðu kannski nýst betur í stúkunni (!?). En hvað um það, þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum fengu heimamenn aukaspyrnu á hægri kantinum. Árni Arnarson sendi fína sendingu inn á teiginn þar sem Dejan Milkovic kom á ferðinni og skallaði boltann upp í netmöskvana og tryggði heimamönnum öll þrjú stigin í leiknum. Lið Aftureldingar reyndi hvað það gat til að jafna leikinn en vörn Tindastóls/Hvatar stóð fyrir sínu og tryggði að þrjú stig bættust í pottinn.
Lið Tindastóls/Hvatar átti ágætan leik lengstum en leikurinn var þó jafn. Það var seygla í liðinu og það gaf fá færi á sér. Þá er liðið sterkt í föstum leikatriðum, með fína spyrnumenn og góða skallara. Gestirnir eru sennilega sárir að fara stigalausir af Króknum en liðin í 2. deildinni eru ótrúlega jöfn í sumar og í raun má segja að 10 lið af 12 séu í toppbaráttu. ÍH og Árborg virðast dæmd til að falla og önnur lið þurfa varla að óttast að falldraugurinn bregði fyrir þau fæti. Tindastóll/Hvöt eru í 6. sæti í deildinni þegar 8 umferðir eru eftir, liðið er með 23 stig, aðeins fjórum stigum minna en topplið Hattar sem fékk á baukinn hjá grönnum okkar í Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar fyrr í dag. Það verður því spennandi að fylgjast með næstum leikjum en þann 4. ágúst heimsækja strákarnir ÍH í Hafnarfjörðinn.
Ljósmyndari Feykis var á vellinum í kvöld og náði nokkrum sæmilegum myndum þó aðstæður hafi verið orðnar ansi erfiðar undir lok leiks en þá var nánast skollið á myrkur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.