Yfirleitt mjög góð stemning fyrir keppni í Skólahreysti
Skólahreysti fer af stað í dag en þá mætast fulltrúar skólanna á Norðurlandi í mikilli keppni í íþróttahöllinni á Akureyri. Fulltrúar grunnskólanna á Norðurlandi vestra hafa staðið sig með miklum sóma í gegnum tíðina og þeir munu væntanlega ekki gefa þumlung eftir í dag. Keppnin hefst kl. 17 og hægt verður að fylgjast með í beinni útsendingu í Sjónvarpi allra landsmanna. Grunnskólinn austan Vatna lætur ekki sitt eftir liggja og Feykir sendi nokkrar spurningar á Jóhann Bjarnason, skólastjóra.
Hvernig er valið í lið Grunnskólans austan Vatna í Skólahreysti? „Skólahreyisti er valgrein í unglingadeildinni 8. – 10. bekk. Þegar líður á veturinn þá er sett upp undankeppni þar sem allir nemendur í elstu deild geta tekið þátt en íþróttakennari velur svo með hliðsjón af þeim árangri nemendur úr 9. og 10. bekk eins og reglur keppninnar gera ráð fyrir. Í undantekningartilfellum höfum við þurft að nýta þann kost að varamaður sé úr hópi 8. bekkjar sem er í boði þegar samanlagður fjöldi nemenda í 9. og 10. bekk er undir 20.“
Gengst liðið undir miklar æfingar í undirbúningi fyrir Skólahreysti? „Æfingar eru í skólahreystivali, sem er einu sinni í viku allan veturinn. Þær æfingar eru alveg óháð því hvort þú kemst í liðið eða ekki. Þeir sem eru svo valdir í keppnina sjálfa þegar töluvert er liðið á veturinn, gefst kostur á að fá æfingaáætlun fyrir sig pesónulega sem miðar þá markvissar að þeim greinum sem þeir keppa í. Það er þó alveg sett í hendur krakkanna sjálfra hvað þeir fylgja því markvisst eftir utan valgreinatímanna, sem fer eftir þeirra persónulega áhuga og metnaði.“
Hverjir skipa lið skólans í ár? „Fjóla Indíana Sólbergsdóttir, Bjarkey Dalrós Rúnarsdóttir, Björn Austdal Sólbergsson og Dvíð Þór Lata eru aðalmenn og til vara Hlynur Jónsson og Valgerður Rakel Rúnarsdóttir.“
Er mikill metnaður hjá krökkunum að standa sig? „Já, það er yfirleitt mjög góð stemning fyrir þessari keppni enda hafa þau ætíð staðið sig mjög vel og náð góðum árangri.“
Fer stór hópur úr skólanum á keppnina á Akureyri? „Já það fara yfirleitt allir nemendur 8. – 10. bekkjar til að hvetja sitt lið,“ segir Jóhann að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.