WR Hólamót og reiðsýning útskriftarnema á Hólum um helgina

Næstkomandi helgi fer fram hið árlega WR Hólamót í sem er hestaíþróttamót UMSS og Skagfirðings. Mótið fer fram á Hólum í Hjaltadal, hefst föstudaginn 19. maí og lýkur á sunnudag. Samhliða mótinu fer fram reiðsýning útskriftarnema frá hestafræðideild Háskólans á Hólum.

Mótið er titlað sem WR (world ranking) mót og til að fræðast meira um hvað það þýðir hafði Feykir samband við Unni Rún Sigurpálsdóttur en hún er mótsstjóri mótsins ásamt Sigrúnu Rós Helgadóttur.
,,WR mót er mót þar sem alþjóðlegur dómari erlendis frá dæmir ásamt fjórum dómurum með alþjóðaréttindi frá Íslandi. Þar af leiðandi eru niðurstöður birtar á FEIF lista og eru alþjóðlegar niðurstöður. Nú á heimsmeistaramóts ári er meðal annars horft til WR móta þegar valið er inn í landslið Íslands fyrir HM í ágúst.

Með góðum árangri á móti sem þessu geta því knapar gert sig að fýsilegum kosti fyrir landsliðsþjálfarann Sigurbjörn Bárðarson að velja sem einn af fulltrúum Íslands á HM í Hestaíþróttum sem fram fer í Hollandi í sumar.

Mótið hefst í hádeginu á föstudegi þar sem keppni fer fram í fimmgangi, tölti og gæðingaskeiði, á laugardaginn er áfram forkeppni í öllum flokkum en úrslit fara fram á sunnudaginn ásamt básaskeiði. Mótinu lýkur því seinnipart sunnudags. Reiðsýning frá hestafræðideild Hólaskóla verður á keppnisvellinum á Hólum seinnipart laugardags.

Mótsvæðið á Hólum er eitt það besta á landinu og er afar hentugt fyrir mót af þessu tagi.
,,Hólar bjóða upp á frábært keppnissvæði eins og hefur sýnt sig á Landsmóti Hestamanna 2016 og Íslandsmótinu á Hólum sumarið 2021. Frábært hesthús þar sem allir geta komið hestum sínum í stíu á meðan móti stendur, góðar reiðhallir til upphitunar ásamt upphitunarhring og góðum hringvelli.‘‘

,,Þetta stefnir í skemmtilegt mót með mjög góðum hestum og knöpum. Við hvetjum alla til að taka helgarrúnt heim að Hólum til að sjá bæði hesta og menn.‘‘ segir Unnur Rún að lokum.

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir