Vorútsala á vellinum
Það er kannski fullsterkt í árina tekið að segja komið vor en fótboltinn er jú einn vorboðanna ljúfu. Í gær tóku Stólastúlkur á móti góðu liði Breiðabliks í Lengjubikarnum á Sauðárkróksvelli og það reyndist gestunum helst til of auðvelt að sækja stigin þrjú. Fyrri hálfleikur var ekki alslæmur hjá heimastúlkum en síðari hálfleikurinn var glataður. Lokatölur 0-8.
Bæði liðin taka þátt í Bestu deildinni í sumar og ljóst að það er talsvert verkefni fyrir höndum hjá Donna og hans liðskonum að stilla strengina fyrir þau átök. Lið Blika er auðvitað vel mannað, skipað teknískum leikmönnum sem kunna listina að láta boltann ganga og eru rútíneraðar í sínum leik. Nokkrar Stólastúlkna virtust ekki koma alveg heilar til leiks og það var skarð fyrir skildi.
Stólastúlkur byrjuðu leikinn ágætlega og náðu að leysa það ágætlega að koma boltanum fram völlinn í gegnum pressu gestanna. Fyrsta markið gerð Agla María á 14. mínútu eftir klaufagang í vörn Tindastóls og náðu Blikar öllum völdum í leiknum í kjölfarið. Leiðir Stólastúlkna fram völlinn lokuðust flestar og þær voru oftar en ekki étnar umsvifalaust um leið og boltinn var færður út úr vörninni. Annað mark lá fljótlega í loftinu, Blikar áttu bylmingsskot í slána og Magga varði nokkrum sinnum frábærlega í markinu. Annað mark leiksins gerði Andrea Rut á annarri mínútu uppbótartíma sem var ekki til að gera heimastúlkur upplitsdjarfari.
Bryndís fyrirliði varð fyrir því óláni í upphafi síðari hálfleiks að skora í eigið mark eftir fast leikatriði Blika. Á 64. mínútu fengu Blikar víti sem Agla María skoraði úr af öryggi og má segja að síðasta hálftímann hafi gestirnir verið líklegir í nánast hverri sókn, lið Tindastóls gerði sig sekt um mörg mistök og brunaútsölur í gangi í varnarleiknum. Mistök sem ekki er hægt að gera gegn eins góðu liði og Blikar hafa á að skipa og reikna með að sleppa með þau. Hafrún Rakel skoraði á 70. mínútu, Taylor Zierner á 85. mínútu og mínútu síðar gerði Agla María glæsimark og sitt þriðja í leiknum. Í uppbótartíma komst hún síðan á vítapunktinn og skoraði áttunda mark Blika – þó Magga hafi ekki verið langt frá því að verja.
Vond úrslit því staðreynd en í raun hefði sigurinn getað orðið enn stærri. Liði Tindastóls til hróss má segja að þær héldu áfram að reyna að spila boltanum og færa hann fram á völlinn án þess að negla stanslaust langa boltanum. Liðið fékk örfáa sénsa í leiknum en Melissa skallaði naumlega framhjá marki Blika um miðjan síðari hálfleik úr dauðafæri. Það sem sjaldnast vantar hjá liði Tindastóls, stemningu og talanda, virtist skorta í gær – það ætti að vera hægt að laga það í næsta leik og ljóst að allir leikmenn liðsins geta betur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.