„Við erum allar þarna af sömu ástæðu, við elskum að spila fótbolta“
Það er alltaf nóg af fótbolta hjá Elísu Bríeti Björnsdóttur, 16 ára leikmanns Tindastóls í Bestu deildinni. Hún hefur verið einn af lykilleikmönnum Stólastúlkna í sumar sem og jafnaldra hennar, Birgitta Rún, báðar frá Skagaströnd, en þær hafa átt fast sæti í byrjunarliði Tindastóls og staðið sig hetjulega. Nú á dögunum fór Elísa Bríet með U16 landsliði Íslands á Norðurlandamót U16 kvenna sem fram fór í Finnlandi í byrjun júlí.
Elísa var eini leikmaðurinn af Norðurlandi sem valin var í 20 manna hóp Þórðar Þórðarsonar þjálfara liðsins. Hún hefur mikinn metnað, er einbeitt og vinnusöm og með gott auga fyrir sendingum og spili. Þar að auki er hún fjölhæf og getur leikið mismunandi stöður á vellinum og skilar alltaf sínu með glæsibrag. Feykir heyrði aðeins í henni hljóðið.
Fékkstu einhvern spilatíma í Finnlandi og er mikil samkeppni um stöður í landsliðinu? „Ég fékk sirka 15-20 mínútur í fyrstu tveimur leikjunum en svo í loka leiknum byrjaði ég inná og spilaði 64 mínútur. Það var samkeppni um einhverjar stöður en ekki allar samt.“ Hún kom inn á í stöðu hægri bakvarðar í fyrstu tveimur leikjunum en síðasta leik Íslands á mótinu byrjaði hún inn á sem djúpur miðjumaður.
Er mikið af efnilegum stelpum í liðinu? „Hópurinn var rosalega sterkur og fullt af efnilegum stelpum. Til dæmis Thelma Karen sem spilar með meistaraflokki FH, hún er mjög efnileg, Fanney Lísa í Stjörnunni er líka mjög efnileg og fædd árið 2009. Ég gæti haldið áfram og nefnt allar í hópnum því þetta var mjög sterkur hópur að mínu mati.“
Eru einhverjar þessara stelpna að spila jafn mikið og þið Birgitta í Bestu deildinni? „Það eru nokkrar sem eru að spila í Bestu deildinni. Thelma Karen er að spila mikið fyrir FH, Sóley Edda er búin að vera að byrja marga leiki fyrir Stjörnuna og svo eru Fanney Lísa og Hrafnhildur Salka einnig að spila mikið fyrir Stjörnuna. Annars held ég að ég sé ekki að gleyma neinni annarri.“
Á ekki Birgitta að vera í þessum landsliðshópi? „Ég get ekkert sagt til um það, það er þjálfarinn sem ræður því. En hins vegar fannst mér hún allan daginn eiga það skilið miðað við hvað hún er búin að standa sig vel í Tindastólsliðinu í sumar og ég efast ekki um að þetta hefur verið erfitt fyrir Dodda þjálfara að ákveða.“
Þið Birgitta og Saga Ísey [16 ára frá Hvammstanga] hafið heldur betur fengið að láta ljós ykkar skína í sumar og gefið hvergi eftir. Eru mótherjarnir að bera virðingu fyrir ykkur eða fáið þið að heyra það að þið séu ungar? „Við viljum alltaf láta finna fyrir okkur. Ég held að mótherjunum sé alveg sama hvað við erum gamlar. Við erum allar þarna af sömu ástæðu, við elskum að spila fótbolta og það hefur komið okkur langt.“
Hver hefur verið erfiðasti mótherjinn sem þú hefur mætt í sumar? „Ætli ég verði ekki að segja Valur. Við töpuðum þeim leik 3-1 en ég held ég sé ekki að ljúga þegar ég segi að það hafi verið bestu úrslit sem Tindastóll hefur náð á móti Val.“
Hvernig finnst þér hafa gengið hjá liði Tindastóls í sumar, finnst þér þið vera að spila betri fótbolta en í fyrra? „Mér finnst við þora að spila boltanum meira en í fyrra og svo er auðvitað geggjuð liðsheild sem gerir mikið fyrir okkur. Mér líst ótrúlega vel á framhaldið,“ segir Elísa Bríet að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.