Verður Haukum dæmdur sigur í bikarleiknum?
Tindastóll og Haukar mættust í VÍS bikarnum sl. mánudagskvöld og unnu Stólarnir leikinn af öryggi. Á daginn hefur komið að mistök urðu við leikmannaskipti hjá Stólunum þannig að á einu andartaki leiksins voru fjórir erlendir leikmenn Tindastóls inni á vellinum. Reglan er sú að á öllum tímum skuli tveir íslenskir leikmenn vera inn á í hverju liði. Brot á reglunum þýðir að brothafi tapar leiknum 20-0 og skal greiða 250 þúsund króna sekt. Einfalt – eða kannski ekki.
Það sem gerðist var í raun að leikmaður Tindastóls bað um skiptingu en kallar rangan mann út af, Sigga í stað Keyshawn. Haukamaðurinn Hilmar Henningsson er á vítalínunni þegar skiptingin er gerð og bekkurinn hjá Stólunum áttar sig á mistökunum og biður dómara um að fá að leiðrétta skiptinguna. Dómarar hafna því og Vlad, þjálfari Stólanna, biður um leikhlé. Leikmaður Hauka skorar úr vítinu og Stólarnir fá leikhlé í kjölfarið. Á meðan vítið er tekið eru sannarlega fjórir erlendir leikmenn Tindastóls á vellinum en klukkan er stopp og leikmennirnir gera því ekkert annað en að horfa á leikmann Hauka taka víti. Síðan er einum erlendum leikmanni kippt út af.
Reglur eru reglur segja einhverjir og telja Hauka geta kært atvikið og þeim verði því dæmdur sigur. Málið er ekki alveg svona einfalt segja aðrir og enn öðrum finnst þetta alveg út í hött. Tindastóll vann leikinn af öryggi og það kom aldrei til þess að fjórir erlendir leikmenn væru að spila samtímis. Augljós mistök hafi orðið sem reynt var að leiðrétta samstundis.
Mistök sem við höfum séð ótal sinnum
„Það er öllum ljóst að þarna er um hrein mistök að ræða að hálfu leikmanns sem biður rangan leikmann að koma út af og dómarar leyfa Tindastól ekki að klára skiptingar, laga eða gera rétta skiptingu þar sem öll tækifæri til þess voru til staðar og allt gert til að fanga athygli þeirra. Hávaðinn í húsinu var jú mikill og því auðvelt að misheyra eða taka ekki eftir.
Leikmaðurinn, AD í þessu tilfelli, misheyrir eða biður rangan mann um skiptingu. Hann, AD, getur ekki sem leikmaður, einbeittur á leikinn, verið að spá í hvort hann er að taka út af Íslending, og þar með komnir fjórir erlendir inn á, og hvort einhver þeirra hafi verið með fasta búsetu á Íslandi sl. 3 ár.
Þegar flautan gellur er myndavélin á Hilmari, sem klárar fyrra vítið, en skipt er um myndavél og kemur yfirlitsvél á völlinn þá sést í skallann á Sigga sem stendur enn inni á vellinum.
Þarna er ekki um viljaverk að reyna að tefla fram of mörgum erlendum leikmönnum eða tilraun til að hafa áhrif á leikinn eða útkomu hans. Þarna er um að ræða einföld mistök leikmanns um það hver á að fara út af sem við höfum séð óteljandi sinnum og dómarar leyfa liðum að laga og bæta í mestu makindum áður en víti eru tekin,“ segir Sveinn Brynjar Lamont Pálmason, starfsmaður leiks, m.a. í pistli sem barst Feyki.
Það verður í það minnsta forvitnilegt að fylgjast með framhaldi þessa máls en þegar þessi frétt er rituð þá hafa Haukar enn ekki kært atvikið. Sumum þykir það enda ekki vera þeirra, KKÍ eigi að tækla svona mál án kvartana eða kæru frá félagsliðunum. Augljóslega eru reglurnar og viðurlögin við brotum á þeim sett til að koma í veg fyrir að lið svindli á 3+2 reglunni. Öllu skynsömu fólki ætti að vera fullljóst að þarna urðu mistök en ekki vísvitandi svindl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.