Valur með refsivöndinn gegn Stólum í Bestu deild kvenna

Stólastúlkur fengu rassskellingu á Origo vellinum í gær er þær mættu Val, efsta liði Bestu deildarinnar. Þetta var leikur kattarins að músinni þar sem Valskonur höfðu öll völd á vellinum og lönduðu 5-0 sigri og styrktu þar með stöðu sína á toppnum.

Leikurinn fór rólega af stað, engin teljandi marktækifæri hjá hvorugu liðinu en ágætis varnir. Stólar náðu að hægja á leiknum, spila boltanum vel sín á milli og byggja upp sóknir og leit út fyrir að gestirnir ætluðu að veita heimastúlkum verðuga keppni í leiknum. En það er engin tilviljun að Valskonur séu í efsta sæti deildarinnar með öfluga leikmenn í hverri stöðu og sóknir þeirra hörðnuðu með hverri mínútu sem leið sem á endanum bar þann árangur að Bryndís Arna Níelsdóttir fiskaði vítaspyrnu á 25. mínútu. Tók hún vítið sjálf og skoraði af öryggi framhjá Monicu sem henti sér í rangt horn. Eftir þetta atvik virtist sem liðið missti trú á verkefninu og sá aldrei til sólar það sem eftir lifði leik. Tíu mínútum síðar jók Þórdís Elva Ágústsdóttir muninn í 2-0 og rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks hafði Bryndís Arna bætt sínu öðru marki á stigatöfluna og þriðja mark Valsara staðreynd.

Það er ekki gott að segja hvað þjálfari Stóla hafi lagt til í leikhlé en leikmenn voru varla mættir á völlinn í seinni hálfleik þegar Bryndís Arna Níelsdóttir hafði náð að auka muninn enn frekar með sínu þriðja marki, staðan 4-0 og útlitið svart, baráttan máttlaus, sendingar ónákvæmar og löngu kýlingarnar fram skiluðu engum árangri.

Á 55. mínútu var svo komið að breytingum hjá Stólum þegar Murielle Tiernan og Bergljót Ásta Pétursdóttir voru teknar af velli og inn á komu Hrafnhildur Björnsdóttir, sem hefur átt við meiðsli að stríða í nokkurn tíma, og hin 15 ára gamla Birgitta Rún Finnbogadóttir. Tíu mínútum síðar var önnur skipting gerð hjá Stólum þegar Melissa Alison Garcia fór út af í stað annarrar 15 ára stúlku úr 3. flokki, Elísu Bríeti Björnsdóttur. Djörf ákvörðun og spurning hvaða skilaboð er verið að senda inn í leikmannahópinn. Þegar um fimm mínútur liðu leiks kom síðasta skipting Stóla þegar Krista Sól Nielsen kom inn á fyrir Aldísi Maríu Jóhannsdóttur, sem hafði verið í framherjastöðunni megnið af seinni hálfleik.

Þó lítið væri skorað í seinni hálfleik var það bara tímaspursmál hvenær, en ekki hvort, fimmta markið liti dagsins ljós en það skoraði landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir sem skömmu áður hafði komið inn á eftir langt hlé frá knattspyrnu en þetta var fyrsti leikur hennar eftir fæðingarorlof.

Þrátt fyrir tap Stóla breytist röð neðstu liða lítið þar eð Selfoss og ÍBV töpuðu einnig sínum leikjum og verma tvö neðstu sætin en Stólar og Keflavík höfðu sætaskipti þar sem Keflvíkingar höfðu betur gegn Þrótti sem er í toppbaráttunni. Tindastóll í 8. sæti með átta stig og Keflavík í því 7. með jafnörg stig og Stjarnan sem situr í 6. sæti eða 11. stig.
Næsti leikur Tindastóls fer fram miðvikudaginn 21. júní á Akureyri gegn Þór/KA en næsti heimaleikur verður ekki fyrr en 21. júlí.

Sjá stigatöflu HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir