Valsmenn léttir
Stólarnir renndu suður á Hlíðarenda í gær og mættu þar Íslandsmeisturum Vals í síðustu umferð riðlakeppni Subway-deildarinnar. Valsmenn höfðu þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn í umferðinni á undan og virtust alls ekki vera í þeim gír að gefa gestunum alvöru leik. Það fór svo að Stólarnir gengu á lagið þegar á leið og möluðu á endanum meistarana mélinu smærra. Lokatölur 71-98.
Fyrsti leikhluti var jafn og fjörugur og ljóst að þó Tindastólsmenn væru búnir að tryggja sér fimmta sætið í deildinni þá vildu þeir hvergi gefa eftir og sýndu fjölmörgum stuðningsmönnum sínum, sem mættir voru á Hlíðarenda, skemmtilega takta. Stólarnir leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 18-21, eftir að Raggi kláraði með þristi og Stólarnir bættu við forystun í upphafi annars leikhluta og voru komnir með ellefu stiga forystu, 19-30, eftir þrist frá Drungilas þegar fjórar mínútur voru liðnar. Þá náðu heimamenn að halda í horfinu og náðu síðan góðum kafla og voru komnir yfir, 40-39, þegar mínúta var í hálfleik. Stólarnir svöruðu fyrir sig og Arnar kláraði fyrri hálfleik með þristi og Stólarnir yfir, 43-45, í hálfleik.
Stólarnir höfðu yfirhöndina í þriðja leikhluta og var jafnan með fimm til tíu stiga forystu. Sjö stigum munaði að loknum þriðja leikhluta en þá hafði Kristófer Acox skellt í hollíhú. Það var síðan líkast því að Valsmenn hefðu verið að hugsa um eitthvað annað en körfubolta í fjórða leikhluta því þeir skrópuðu eiginlega í hann. Stólarnir skemmtu sér og sínum á meðan og gerðu körfur af öllum gerðum og sérstaklega gladdi Taiwo Badmus áhorfendur með glæsitilþrifum.
Taiwo var í úrslitakeppnisformi í gær, gerði 30 stig og tók 14 fráköst. Þá gerði Kewshawn 26 stig og Arnar 13 en aðrir fóru spart með stigin sín. Pétur var þó með sjö stig og átti níu stoðsendingar. Fátt var um fína drætti hjá meisturunum en það dugar sennilega skammt að vonast til að þeir séu orðnir svona lélegir. Þeir sýndu það í leiknum í Njarðvík í umferðinni á undan að þeir eru illviðráðanlegir þegar þeir finna taktinn.
Það fór líkt og Feykir reiknaði með fyrir lokaumferðina að Tindastóll mætir liði Keflavíkur í úrslitakeppninni. Keflavík á heimavallarréttinn og þó þeir hafi verið með ólíkindum vonlausir upp á síðkastið þá hafa þeir á að skipa sterku liði sem engan veginn má vanmeta. Stólarnir hafa hins vegar verið firnasterkir að undanförnu og takturinn í liðinu flottur. Þetta verður veisla.
Fyrsti leikur liðanna í úrslitakeppninni verður í Keflavík miðvikudagskvöldið 5. apríl og hefst kl. 20:15. Liðin mætast síðan í Síkinu 8. apríl kl. 19:15. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.