Vaknaði með bikarnum í morgun
„Maður er kannski svolítið enn að reyna að átta sig bara á þessu. Ég var svo heppinn að geyma bikarinn hjá mér þannig að það var góð tilfinning að opna augun og það fyrsta sem maður sá var Íslandsmeistaratitillinn,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson, herra Skagafjörður, þegar Feykir spurði hann í morgun hvernig væri að vakna sem Íslandsmeistari.
Geturðu lýst gærkvöldinu? „Það er voða erfitt að koma því í orð. Besta orðið er held ég bara að það hafi verið ólýsanlegt, allir sem maður hitti þarna á gólfinu eftir leik voru með svo mikla ósvikna gleði í augunum og bara ótrúlegt að vera hluti af þessu samfélagi sem Skagafjörður er.“
Hvað er eftirminnilegast úr leiknum? „Fyrir mitt leyti er það þegar Keyshawn fer á vítalínuna í lokin, ég var svo stressaður að ég gar varla horft á hann en hann sallaði hverju vítinu á fætur öðru eins og hinn rólegasti maður.“
Einhver skilaboð til stuðningsmanna? „Ég vill bara koma fram þakklæti mínu til þeirra allra. Að nenna að standa á bakvið okkur í allan þennan tíma og gefa alla þessa orku frá sér leik eftir leik er miklu meira virði heldur en þau átta sig líklega á. Þannig að ég vill bara segja takk.“
Aðspurður um hvað leikmenn gerðu að hafaríinu á Hlíðarenda loknu segir Pétur að vel hafi verið fagnað inni í klefa og þaðan var farið á Zumac að borða. „Eftir það fórum við í stemmninguna á Ölver þar sem við hittum stuðningsmenn sem var algjörlega geggjað. Svo er bara Lokahóf í kvöld skilst mér og þar verður væntanlega fjör!“
Það má reikna með fleiri viðtölum í þessum dúr við leikmenn Tindastóls og stuðningsfólk – ef ekki nú þá sennilega aldrei...
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.