USAH sækir um að halda Landsmót UMFÍ 50+ sumarið 2024
Þrír sambandsaðilar UMFÍ sóttu um að halda Landsmót UMFÍ 50+ árið 2024, Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK), Ungmennafélagið Þróttur Vogum og Ungmennasamband Austur-Húnvetninga (USAH). Mótið fer fram í Stykkishólmi í sumar.
USAH og HSK hafa áður haldið mótið en það var á Blönduósi 2015 og í Hveragerði árið 2017 en aldrei áður verið haldið á sambandssvæði Þróttar Vogum. Á vef UMFÍ kemur fram að þetta sé í annað sinn sem stjórn félagsins sækir um að halda mótið. „Það gerði hún síðast þegar sótt var um að halda það árið 2022. Um það leyti átti mótið upphaflega að vera í Borgarnesi árið 2020. Því var hins vegar frestað í tvígang af völdum COVID-faraldursins og fór ekki fram fyrr en í Borgarnesi um Jónsmessuna í fyrra.“
Landsmót UMFÍ 50+ var fyrst haldið á Hvammstanga árið 2011 og hefur farið fram víða á landinu síðan, m.a. á Sauðárkróki 2018 þegar nýtt fyrirkomulag var reynt undir heitinu Landsmótið en þá var keppt i öllum aldursflokkum. Horfið hefur verið frá þeirri útfærslu og mótin haldin sé á ný. Þannig fer Unglingalandsmótið fram á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina 4. - 6. ágúst í sumar.
Næsta Landsmót 50+ verður haldið í Stykkishólmi dagana 23. – 25. júní í sumar í samstarfi við Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu og sveitarfélagið Stykkishólm. Þar verður keppt í 17 íþróttagreinum; badminton, boccia, borðtennis, bridds, frisbígolf, frjálsar íþróttir, golf, götuhlaup, hjólreiðar, körfubolti, pílukast, pútt, ringó, skák, stígvélakast og sund.
Jafnframt verður þátttakendum og gestum og gangandi boðið að prófa ýmsar aðrar greinar, sem ekki verður keppt í.
Tengdar fréttir:
Þétt dagskrá við toppaðstæður á Landsmóti UMFÍ 50+
Landsmótið hafið á Sauðárkróki
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.