Ungmennaflokkur karla að gera góða hluti í körfunni
Í Síkinu um helgina (föstudag og laugardag) mættust, í tveim leikjum, Tindastóll og Keflavík í Ungmennaflokki karla. Hart var barist frá byrjun og var staðan 19-17 eftir fyrsta leikhluta. Tindastólsstrákarnir komu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og skelltu í lás í vörninni og keyrðu bókstaflega yfir gestina, staðan 43-23 fyrir Tindastól. Okkar strákar slökuðu ekkert á í seinni hálfleik og unnu að lokum með 40 stiga mun, 91-51, þar sem allir náðu að skora.
Á laugardeginum mættust liðin aftur og eftir mikið jafnræði fyrstu mínúturnar fóru Stólarnir að síga jafnt og þétt fram úr og var staðan 27-18 eftir fyrsta leikhluta. Keflvíkingar komu mikið ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta og náðu að halda í við Stólana, staðan í hálfleik 45-36 fyrir Tindastól. Okkar strákar tóku svo góðan sprett í seinni hálfleik og héldu forystunni og sigruðu að lokum 87-68.
Til gaman má nefna að Ungmennaflokkur karla er í fyrsta sæti í sinni deild með fjórtán sigra og eitt tap. Þeir eiga nú fjóra leiki eftir og næsti leikur er gegn Skallagrím sem verður spilaður í Borgarnesi þann 12. mars. Skallagrímur situr nú í neðsta sæti með aðeins tvö stig en þegar þessi lið mættust síðast unnu okkar drengir 92-85. Helgina 25. og 26. mars fá strákarnir Hraunamenn/Laugdælir í Síkið og verða spilaðir tveir leikir. Hraunamenn/Laugdælir sitja nú í 4. sæti með fjórtán stig. Síðasti leikur Ungmennaflokks er svo á móti sterku liði Hauka en þeir eru í 2. sæti með 18 stig. Sá leikur fer fram í Hafnafirði þann 22. apríl.
Til hamingju með árangurinn strákar, framtíðin er björt.
Áfram Tindastóll
/Hjalti Vignir Sævaldsson og Sigga Garðars
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.