Tveir úr Tindastól í lokahóp landsliða KKÍ U16 og U18
Landsliðsþjálfarar KKÍ hafa valið og boðað sína leikmenn í landslið U15, U16 og U18 ára drengja og stúlkna fyrir sumarið sem framundan er. Þjálfararnir hafa valið þá leikmenn sem skipa 16 til 18 manna landsliðin en það er lokahópurinn sem tekur þátt í æfingum og verkefnum sumarsins. Tveir piltar úr Tindastól skipa hvorn sinn aldurflokkinn í landsliði Íslands 2023.
Í U16, U18 og U20 verða 12 leikmenn valdir til að leika á NM og EM í sumar úr þessum hópi en í U15 liðunum eru það allir þeir 20 leikmenn drengja og stúlkna sem eru valdir nú sem munu leika í tveim 10 manna liðum í sínu verkefni.
Allir leikmenn sem ekki skipa loka 12 leikmannahópana eru áfram í sínum hópum sem varamenn og taka þátt í æfingum sumarsins, og eru tilbúnir til að stíga inn ef upp koma meiðsli eða annað sem kallar á breytingar á liðsskipan liðanna.
U16 og U18 taka þátt í NM og EM í sumar en U15 fer í æfinga- og vináttulandsleikja verkefni í Finnlandi í ágúst líkt og var á síðasta ári. NM U18 ára fer fram í Södertalje í Svíþjóð en NM U16 og U15 landsliðsverkefnið fer fram í Kisakallio í Finnlandi.
U20 liðin eru í vinnslu og verða endanlega valin síðar, en verið er að klára að velja þar fyrstu hópa leikmanna sem boðaðir verða til fyrstu æfinga í vor. U20 liðin leika í ár bæði á NM í Svíþjóð sem og á EM mótum FIBA
Piltarnir úr Tindastól sem þátt taka í verkefnum landsliða KKÍ í sumar eru þeir Axel Arnarsson í U16, en þar er Króksarinn Friðrik Hrafn Jóhannsson einn þjálfara, og Orri Már Svavarsson U18.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.