Topplið Blikastúlkna mætir á Krókinn
„Leikurinn leggst vel í mig og við erum öll mjög spennt að takast á við liðið sem er efst í deildinni. Þær eru auðvitað ógnarsterkar og á deginum sínum mjög erfiðar við að eiga. En okkar stelpur hafa sýnt að þær hræðast ekkert lið og eru tilbúnar að gefa allt í þetta,“ sagði Donni þjálfari Stólastúlkna en topplið Breiðabliks heimsækir Krókinn í kvöld. í 11. umferð Bestu deildarinnar.
Liðin mættust fyrst í 2. umferð og þá hafði Breiðablik betur, 3-0. Komst yfir snemma leiks en lið Tindastóls fékk tækifæri til að jafna leikinn í síðari hálfleik áður en Blikar gulltryggðu sigurinn á lokamínútunum. Lið Blika og Vals eru á toppi deildarinnar eins og reiknað er með, bæði með 27 stig að loknum tíu umferðum en Breiðablik með betri markatölu. Sérstaklega hefur varnarleikur þeirra verið góður en liðið hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk í deildinni.
Hvað þarf til að leggja Blikastúlkur að velli? „Það þarf flest að ganga upp hjá okkur í dag til að fá góð úrslit. Við þurfum að trufla þeirra leik og helst ýta þeim út úr því sem þær vilja gera með boltann. Síðan þurfum við að þora að spila okkar leik og halda í boltann þegar við vinnum hann í bland við að sækja hratt á bakvið þær. Föstu leikatriðin munu verða mjög mikilvæg á báðum helmingnum auk þess sem öll klaufamistök og einbeitingarleysi verður að vera i algeru lágmarki á móti svona gæðaliði því þær refsa strax. En við trúum klárlega á okkur og ætlum að gefa allt í þetta.
Hvernig er standið á hópnum? „Standið er alveg ágætt á hópnum í heild sinni. Elísa er með landsliðinu í Finnlandi og Aldís er ennþá í burtu vegna beinmars og það hefur heldur betur munað mikið um hana í sumar eftir geggjað tímabil hjá henni í fyrra,“ segir Donni en Aldís hefur misst mikið úr vegna meiðsla í sumar. „Svo eru nokkrar aðeins lemstraðar en flestar eru spilhæfar og klárar í þetta,“ bætir þjálfarinn við.
Leikurinn hefst kl. 18 og um að gera að fjölmenna á völlinn. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.