Tindastólsstúlkur fóru tómhentar heim úr Þorlákshöfn
Kvennalið Tindastóls í körfunni skellti sér í Þorlákshöfn í gær og spilaði þar við sameinað lið Hamars/Þórs í 5. umferð 1. deildar kvenna. Bæði lið voru með tvö stig að loknum fjórum umferðum. Stólastúlkur fóru vel af stað og voru yfir í hálfleik en heimastúlkum tókst að snúa leiknum sér í vil í síðari hálfleik og sigruðu að lokum 94-87.
Jafnræði var með liðunum framan af en heimastúlkur leiddu 18-15 að loknum fimm mínútum en staðan var 22-23 þegar tvær og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta Þá komu átta stig í röð frá Stólastúlkum sem leiddu því 22-31 þegar annar leikhluti hófst. Hann hófst eins og sá fyrsti endaði; með þristi frá Rebekku og skyndilega var munurinn orðinn tólf stig. Munurinn hélst þetta átta til tíu stig næstu mínútur en síðan hertu heimastúlkur vörnina og náðu að minnka muninn í eitt stig en Emese átti síðasta orðið fyrir hlé. Staðan 48-51.
Stólastúlkur höfðu áfram yfirhöndina framan af þriðja leikhluta en þegar tæpar þrjár mínútur lifðu af honum kom Emma Hrönn heimastúlkum yfir. Chloe jafnaði leikinn, 69-69, en lið Hamars/Þórs gerði fimm síðustu stig leikhlutans og leiddu því 74-69 að honum loknum. Þær skelltu síðan þristi í andlitið á gestunum í upphafi fjórða leikhluta og voru fljótlega komnar með tíu stiga forystu. Þann mun náðu Stólastúlkur ekki að brúa, náðu nokkrum sinnum að minnka muninn í fimm stig en nær komust þær ekki og heimastúlkur fögnuðu því sætum sigri.
Chloe Wanink var stigahæst í liði Tindastóls með 32 stig en Emese Vida var skammt undan með 27 stig en hún hirti 17 fráköst. Þá var Eva með níu stig og sjö stoðsendingar og Inga Sólveig sjö stig og fimm stoðsendingar. Stólastúlkum gekk illa að hemja unglingalandsliðsstúlkuna Emmu Hrönn Hákonardóttur sem gerði 31 stig í leiknum. Þá var Jenna Mastellone með 23 stig og tók ellefu fráköst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.