Tindastólsmenn lyftu bikarnum eftir góðan sigur á Einherja
Lið Tindastóls gulltryggði efsta sætið í 3. deildinni í dag þegar strákarnir unnu öruggan sigur á liði Einherja frá Vopnafirði. Stólarnir byrjuðu leikinn af krafti og voru komnir yfir eftir rétt rúma mínútu. Eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn lenti og staðan í hálfleik 3-0, sem urðu reyndar lokatölur leiksins. Að leik loknum var Tindastólsliðinu afhentur bikar.
Það var enn og aftur fallegur sumardagur á Sauðárkróksvelli í dag og leikmenn léku ágæta knattspyrnu í glampandi sól og smá norðan andvara. Sem fyrr segir fengu Stólarnir óskabyrjun og voru komnir yfir á 2. mínútu en þá höfðu leikmenn Einherja ekki enn komið við boltann. Eftir laglega sókn féll boltinn fyrir Kenneth Hogg sem dúndraði á markið og Oskars Dargis réði ekki við skotið. Tindastólsmenn léku á alls oddi eftir þetta. Enn á ný sundurspiluðu þeir vörn gestanna á 11. mínútu þegar Ragnar Gunnarsson komst upp að endamörkum og gaf fyrir, vörn Einherja skóflaði boltanum út fyrir teig en þar kom Stephen Walmsley á fullri ferð og hamraði boltann í markið.
Eftir þetta buðu Stólarnir upp á skotveislu og negldu hverju skotinu af öðru af löngu færi á mark gestanna. Sérstaklega var Ragnar iðinn við kolann og hefur ekki svona skotglaður leikmaður skeiðað um Sauðárkróksvöll í treyju Tindastóls síðan stórskyttan Guðbrandur Guðbrandsson, núverandi vallarþulur, var upp á sitt al besta á síðustu öld. Ekki gekk þó að koma boltanum í markið fyrr en Konráð Sigurðsson tók aukaspyrnu utan af vinstri kanti. Bæði Fannar og Bjarki reyndu að skalla en náðu ekki til boltans sem endaði í bláhorninu. Þetta var á 33. mínútu og heldur róaðist leikurinn eftir þetta og 3-0 í hléi.
Stólarnir voru áfram mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik og hefðu getað bætt við mörkum en gestirnir voru einbeittari í varnarleiknum og í raun fátt um fína drætti í hálfleiknum. Lið Einherja fékk einn til tvo sénsa á að laga stöðuna en í þau skipti sem vörn Tindastóls gaf færi á sér þá gerði Brenton Muhammad vel í markinu og hélt enn einu sinni hreinu, Eins og oftast áður í sumar hélt hann sínum mönnum vakandi í vörninni með góðum talanda og tilsögn.
Tindastólsmenn fögnuðu innilega í leikslok og fengu verðlaunapeninga fyrir sigurinn í 3. deild og lyftu meistarabikarnum og að sjálfsögðu með tilheyrandi. Eftir að hafa tapað fyrsta leiknum í deildinni í sumar hefur liðið nú unnið 15 leiki í röð og enn eru tvær umferðir eftir. Það er örugglega enginn að gæla við að taka það rólega?
Feykir óskar Tindastólsmönnum til hamingju með titilinn. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.