Tindastólsmenn komnir með Njarðvíkinga í gólfið
Tindastóll og Njarðvík mættust í Síkinu í kvöld í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Subway-deildarinnar. Stólarnir áttu frábæran leik í Ljónagryfjunni sl. fimmtudagskvöld og kjöldrógu heimamenn. Í kvöld spiluðu Njarðvíkingar talsvert mun betur og af meiri hörku en í leik eitt. Það dugði þeim þó ekki því Stólarnir gáfu ekkert eftir frá í fyrsta leik. Það fór því svo að Stólarnir unnu leikinn, 97-86, og hafa því náð 2-0 forystu í einvíginu.
Partýtjaldið sunnan Síkis var opnað næstum þremur tímum fyrir leik og strax mátti sjá fólk streyma að. Stemningin magnaðist með hverri mínútunni og þegar leikurinn hófst voru um 1250 trylltar körfuboltabullur mættar í Síkið.
Tindastóll hafði yfirhöndina framan af leik en það var ekki fyrr en um miðjan annan leikhluta sem liðið náði tíu stiga forystu og þar með tangarhaldi á leiknum. Njarðvíkingar áttu nokkur góð áhlaup en heimamenn héldu svalanum og áttu alltaf svör. Staðan var 45-36 í hálfleik en gestirnir gerðu sjö fyrstu stig síðari hálfleiks og minnkuðu muninn í tvö stig. Smám saman mölluðu Stólarnir forskotið á ný upp í tíu stig og þeir leiddu með tólf stigum fyrir lokakaflann, 69-57. Munurinn var lengstum átta til tólf stig í fjórða leikhluta en á lokakaflanum létu Njarðvíkingar sverfa til stáls og Deon Basile skellti í nokkra þrista. Munurinn varð þó aldrei minni en sjö stig því heimamenn voru bæði hetjur og jarlar og vörðu forskotið skynsamlega.
Sex leikmenn Tindastóls skoruðu tíu eða fleiri stig í kvöld en framlagshæstur við litháeska ljónið, Drungilas, sem tók tíu fráköst og gerði 13 stig. Keyshawn var flottur með 18 stig og sex stoðsendingar, Geks var 17 stig og Arnar 16, Taiwo 11 og Raggi 10. Það eru allir að skila framlagi og lið Tindastóls er fullt sjálfstrausts þessa dagana. Hjá Njarðvíkingum var Basile góður, gerði 23 stig og átti sjö stoðsendingar.
Næst mætast liðin í Ljónagryfjunni á miðvikudag. Með sigri tryggja Tindastólsmenn sér sæti í úrslitaeinvígi Subway-deildarinnar en ef Njarðvíkingar vinna þá sveiflast serían aftur í Síkið á laugardag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.