Tindastóll og FH deildu stigunum
Lið Tindastóls og FH mættust í þriðju umferð Bestu deildar kvenna á Króknum í dag en þau unnu sér bæði sæti í Bestu deildinni síðasta haust. Lið gestanna var stigalaust eftir töp gegn Þrótti og Val en lið Tindastóls hafði eitt stig eftir jafntefli gegn Keflavík og tap gegn Blikum. Það var því mikilvægt fyrir bæði lið að næla í stigin sem í boði voru en eftir mikla baráttu og fjörugan leik þá fór svo að liðin skiptu stigunum á milli sín. Lokatölur 1-1.
Það var ekki hlýtt á Króknum í dag en veðrið var stillt og því fínar aðstæður á gervigrasinu. Liði FH gekk betur að sækja framan af leik og sótti í að komast upp kantana en Bryndís og Gwen voru ólseigar í miðju varnar Tindastóls og náðu að mestu að koma í veg fyrir að lið gestanna kæmist í góð færi. Tindastólsliðið fékk líka sín færi og fyrsta dauðafærið kom á 20. mínútu þegar Murr náði að snúa á vörn FH, komst inn á teiginn en var komin fullnálægt Aldísi í mark FH sem náði að verja frá henni. Ísinn var síðan brotinn á 29. mínútu þegar Murr átti fína sendingu inn fyrir á Aldís Maríu sem komst framhjá nöfnu sinni og náði að skora úr þröngu færi. Lið FH jók sóknarþungann í kjölfarið og þær uppskáru víti á 44. mínútu eftir að María Dögg renndi sér aftan í MacKenzie sem hafði sloppið inn á teiginn. Shania Ashouri skoraði af öryggi úr vítinu og staðan 1-1 í hálfleik.
Fátt var um færi framan af síðari hálfleik en Stólastúlkur fengu þó nokkrar hornspyrnur en þær skiluðu sér ekki á hættusvæði og liði FH hreinsaði frá. Síðari hluta hálfleiksins jókst áræðni liðanna og augljóslega hungraði bæði lið í stigin þrjú. Sóknarþungi Tindastóls jókst talsvert þegar Melissa kom inn á en þrátt fyrir nokkra ágæta möguleika tókst liðunum ekki að bæta við mörkum og jafntefli því sennilega sanngjörn niðurstaða.
Það má strax sjá góðar framfarir hjá liði Stólastúlkna en liðinu gengur nú betur að halda í boltann og finna leiðir fram völlinn. Það var synd að liðið náði ekki að nýta föst leikatriði betur því Stólastúlkur fengu nokkrar horn- og aukaspyrnur sem sköpuðu litla hættu við mark FH. Gwen hefur komið gríðarsterk inn í vörnina og hún steig engin feilspor í dag. Þá var Aldís María í fínu formi og gerði gestunum erfitt fyrir með krafti og áræðni. Það var margt jákvætt í leik heimastúlkna og ekki skortir dugnaðinn og baráttuna.
Lið Tindastóls hefur nú lokið þremur heimaleikjum og hefur náð úr þeim tveimur stigum. Næst fara stelpurnar á Selfoss til að ná í þrjú stig. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.