Þrír stórleikir í fótboltanum á Norðvesturlandi um helgina
Það verða spilaðir þrír mikilvægir leikir í boltanum hér á Norðurlandi vestra um helgina í þremur mismunandi deildum. Kormákur/Hvöt og Tindastóll spila sína leiki í 3. deild og 4. deild á sama tíma á laugardegi en leikirnir hefjast kl. 14. Á sunnudag fá Stólastúlkur lið Keflavíkur í heimsókn í fyrstu umferð úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildar kvenna. Þær hefja leik korter yfir fjögur.
Það er víst þannig að fyrsta haustlægðin ætlar að gera tilraun til að stela senunni nú um helgina en vænta má sunnanstrekkings – vonandi þó ekki of mikils. Veðurstofan gerir ráð fyrir 10-13 metrum en hitinn verður sennilega í tveggja stafa tölu.
Á Blönduósi tekur lið Kormáks/Hvatar á móti Árbæingum sem með sigri kæmist upp fyrir lið Húnvetninga sem hafa eignað sér annað sæti 3. deildar alla síðari umferð mótsins. Tuttugasta umferðin er farin í gang og nú þegar hafa Víðismenn, sem einnig sóttu að K/H, fengið skell gegn næstneðsta liðinu. Það er skarð fyrir skyldi hjá Húnvetningum að tvær leikmenn fengu að líta rauða spjaldið í síðasta leik og verða því ekki með um helgina. Kormákur/Hvöt er með 28 stig en Árbær 36. Það verður pottþétt fjör á Blönduósvelli og nú verða heimamenn að fjölmenna á völlinn og hvetja sína menn.
Karlalið Tindastóls í 4. deildinni vonast eftir að detta í lukkupottinn og úrslit verði þeim hagstæði í síðustu tveimur umferðunum. Fyrst þurfa þeir þó að taka á móti liði KFK úr Kópavogi sem er nú í þriðja sæti með 33 stig en Stólarnir eru með 30. Fyrir ofan þau er lið Árborgar með 35 stig en hefur leikið einum leik meira Efst tróna Vængir Júpiters með 39 stig og hafa þegar tryggt sér sæti í 3. deild. Vonir Stólanna eru því á mörkum þess að vera raunhæfar en stundum gerast ævintýri.
Kvennalið Tindastóls tekur þátt í úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildarinnar og stendur best liðanna fjögurra sem þar taka þátt. Lið Selfoss verður að vinna alla þrjá leiki sína til að eygja séns á því að halda sér uppi en það kemur til leiks í úrslitakeppnina með 11 stig. Efst er lið Tindastóls með 19 stig, þar á eftir er lið ÍBV með 18 stig og loks Keflavík með 17 stig. Af þessum þremur liðum er lið Tindastóls með slökustu markatöluna. Það getur því allt gerst í úrslitakeppninni og á sunnudaginn taka Stólastúlkur á móti liði Keflavíkur. Það verður fyrsti leikurinn þar sem leikur ÍBV og Selfoss sem vera átti á laugardag hefur verið færður til þriðjudags vegna slæms veðurútlits.
Nú er bara að klæða sig í vindklæðnaðinn og mæta brosandi út í sunnanáttina og hvetja liðin okkar til sigurs. Koma svo!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.