Þórir Guðmundur bestur í Subway-deildinni
Fyrri umferð Subway-deildarinnar í körfubolta karla lauk í gærkvöldi með leik Keflavíkur og Þórs Þorlákshafnar. Það voru gestirnir úr Þorlákshöfn sem höfðu betur og smelltu sér þar með upp að hlið Vals á toppi deildarinnar með 16 stig. Lið Tindastóls er síðan í hópi fimm liða sem eru í 3.-7. sæti með 14 stig.
Ef einhverjir höfðu áhyggjur af því að umfjöllun um körfuna færi niður á við á Stöð2Sport þegar snillingurinn Kjartan gekk úr settinu þá voru þær áhyggjur óþarfar. Þó nýr stjórnandi búi ekki yfir sömu þekkingu á boltanum og Kjartan þá hefur umfjöllunin stóraukist og margir knáir spekingar stokkið á skútuna g yfirleitt mikið gaman og menn ófeimnir við að hafa skoðanir – það vantar að vísu sárlega Tindastólsmann í spekingahópinn. Er ekki hægt að finna skeleggan Skagfirðing?
Umfjöllunin er líka frábær um kvennaboltann og ekki síður gaman að hlusta á spekinga spjalla þar.
Í gærkvöldi var farið yfir nokkra pósta í Tilþrifunum á Stöð2Sport að lokinni fyrri umferðinni hjá körlunum. Ekki fengu Tindastólsmenn margar tilnefningar en meistararnir geta þó glaðst yfir því að Tóti túrbó, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, sem hefur verið að spila frábærlega með liði Tindastóls, var valinn besti leikmaður Subway-deildarinnar og því að sjálfsögðu í liði fyrri umferðarinnar.
Til hamingju Tóti túrbó – það er gott að vera í Tindastól!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.