Þetta var meira en einn sigur! – UPPFÆRT
Tindastólsmenn heimsóttu Ljónagryfju Njarðvíkinga í fyrsta leik í undanúrslitum Subway-deildarinnar í kvöld. Reiknað var með hörkuleik en sú varð ekki raunin. Stólarnir mættu til leiks með einhvern varnarleik sem var frá annarri vídd og heimamenn í Njarðvík komust aldrei inn í leikinn. Í spjalli á Stöð2Sport að leik loknum sagðist Pavel þjálfari hreinlega ekki hafa séð svona varnarleik hjá nokkru liði í langan tíma og þetta hafi í raun verið meira en einn sigur. Staðan í hálfleik var 25-50 og lokatölur 52-85.
Stuðningsmenn Stólanna voru farnir að dansa stríðsdansa löngu fyrir leik í sínum þriðjungi Ljónagryfjunnar og ekki minnkaði stemningin þegar leikurinn hófst og liði Tindastóls virtist fyrirmunað að hitta ekki körfuna – það fór allt niður. Drungilas snéri Stólamótorinn í gang og gerði sjö af níu fyrstu stigum gestanna. Njarðvíkingar náðu að fylgja Stólunum eftir fyrstu mínúturnar en svo hreinlega skildu leiðir. Staðan var 7-7 eftir tvær mínútur en 9-18 eftir fimm mínútur. Þá tók skemmtanastjórinn Arnar við taumunum og skellti í alvöru partýþristaþrennu og staðan skyndilega orðin 9-27. Njarðvíkingar virtust í sjokki og sóknarleikur þeirra var án úrræða og oftar en ekki vandræðalegur. Staðan var 14-32 eftir fyrsta leikhluta og það var ekki langt liðið á annan leikhluta þegar munurinn var kominn í 26 stig. Þá höfðu Badmus og Geks skellt í þrista og þegar Siggi Þorsteins spásseraði í gegnum teig Njarðvíkinga og lagði boltann í körfuna þá ærðust stuðningsmenn Stólanna. Staðan 15-41.
Eftir þetta hægðist nokkuð á sóknarleik Stólanna en varnarleikur liðsins var frábæt allt til leiksloka.
Staðan í hálfleik var 25-50 og ef einhver reiknaði með því að Njarðvíkingar næðu að endurræsa mannskapinn þá fór það ekki svo. Þó svo að drægi úr stigaskori Stólanna þá unnu þeir alla fjóra leikhlutana. Taiwo hafði ekki verið áberandi í fyrri hálfleik þannig að hann minnti á að hann var líka í partýinu og gerði fimm fyrstu stig síðari hálfleiks og munurinn þá 30 stig. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 38-68 og sennilega hefðu heimamenn helst viljað sleppa því að spila fjórða leikhlutann. Þetta var í raun niðurlæging í Ljónagryfjunni og það var ekki fyrr en rétt rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum sem Njarðvík skreið í 50 stig. Þeir enduðu á að skora 52 stig sem þýðir í raun að það hefði dugað liði Tindastóls að skora þrjú stig í síðari hálfleik til að vinna leikinn!
Það voru allir gæðingar Stólanna á eldi í þessum leik, fullir af orku og sjálfstrausti og skein af þeim að þeim finnst gaman að spila leikinn saman. Pétur þurfti ekki einu sinni að skora í leiknum en var samt frábær. Hann var með tólf stoðsendingar og gárungarnir segja að Pavel hafi ákveðið að geyma hann pínu á bekknum svo hann slægi ekki stoðsendingametið í leik í úrslitakeppni – sem Pavel á einmitt. Framan af leik var ótrúlegt að fylgjast með skotnýtingu Stólanna sem var lyginni líkust. Þriggja stiga nýtingin var um 75% eftir fyrri hálfleik. Arnar var stigahæstur með 21 stig, Taiwo 17, Keyshawn og Geks 14 og Drungilas 11. Aðeins Basile skoraði meira en tíu stig í liði Njarðvíkinga.
Stólarnir því komnir með forystuna í einvígi liðanna en næsti leikur verður í Síkinu nú á sunnudaginn. Það verður að teljast ólíklegt að Njarðvíkingar komi jafn flatir til leiks í þeim leik en hafa verður í huga að vörn Tindastóls lokaði á allar aðgerðir heimamanna í kvöld. Eða eins Pavel þjálfari sagði að leik loknum: „Njarðvík var ekki að leggjast niður heldur vorum við að leggja þá niður.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.