Þegar fyrsti leikur fer í gang er sumarið komið!
Það kemur sjálfsagt engum á óvart sem þekkir Bryndísi Rut Haraldsdóttur, fyrirliða kvennaliðs Tindastóls í Bestu deildinni í knattspyrnu, að sumarið leggst alveg rosalega vel í hana. „Ég er orðin mjög spennt að byrja tímabilið eftir langan vetur og held að þetta verði alveg ótrúlega gaman – eins og þetta er nú alltaf!“ segir hún hress og jákvæð.
Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir fyrirliðann en fyrsti leikur Stólastúlkna í Bestu deildinni er á morgun, sunnudag kl. 16, og er frítt á völlinn í boði Uppsteypu.
Hvernig líst þér á nýja leikmenn í hópi Stólastúlkna? „Mér líst mjög vel á þær tvær, Gabby og Jordyn, sem eru að koma nýjar inn í ár. Þær eru góð viðbót í Tindastólsfjölskylduna og hafa bæði mjög góða eiginleika innan vallar jafnt og utan. Það er mikilvægt að fá inn leikmenn sem styrkja hópinn og passa vel inn í hann.“
Liðinu er að venju spáð falli, hvað segir fyrirliðinn um það? „Mér finnst skiljanlegt að okkur sé spáð í neðri hlutanum gefandi það að við erum jú enn lítið félag úti á landi. Fallspá kemur því ekki á óvart, þrátt fyrir að við höfum endað í sjöunda sæti í fyrra. Ég er bara mjög sátt með að fá svona spá því þá verður bara enn skemmtilegra fyrir okkur að afsanna hana!“
Hverju megum við búast við í leiknum gegn FH? „Hörkuleik, það hafa alltaf verið hörkuleikir þegar þessi lið mætast. Mikil barátta og tilfinningar munu mæta til leiks eftir mikla tilhlökkun fyrir mótinu.“
Er sumarið komið? „Þegar fyrsti leikur fer í gang, þá er það komið!! Veðrið hefur nú ekki verið upp á marga fiska en ég held og trúi að nú sé þetta komið gott og sumarið sé að mæta um helgina!“
„Ef ég mætti bæta við þá langar mig að hvetja fólk til að láta sjá sig á vellinum á sunnudaginn klukkan 16:00 þegar fyrsti leikur hefst! Uppsteypa, þessir höfðingjar, ætla að styðja við okkur með að bjóða frítt inn á völlin og væri það okkur leikmönnum og teyminu mjög dýrmætt og mikilvægt að fá fólk til að mæta og styðja við okkur á leiknum!“ segir Bryndís fyrirliði ... frá Brautarholti.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.