„Það vantar bara að setja boltann oftar yfir línuna“
„Ég er mjög sáttur við þróunina á leik liðsins. Þetta er allt í rétta átt og það erum við mjög ánægð með,“ sagði Donni þjálfari Sigurðsson þegar Feykir spurði hann eftir Stjörunleikinn hvort hann væri ánægður með þróun liðsins en Stólastúlkur hafa haldið vel í boltann í síðustu leikjum og spilað góðan fótbolta. Uppskeran þó aðeins eitt stig og lið Tindastóls nú í sjöunda sæti deildarinnar.
„Við erum lika að skapa færi en það vantar bara að setja boltann oftar yfir línuna. Ég er auðvitað sársvekktur með að fà ekki meira út úr síðustu leikjum því mér finnst við eiga mikið meira skilið. En ég trúi því að þetta detti með okkur með áframhaldandi góðri framistöðu.“
Gwen fór á vítapunktinn í gær - var hún vítaskytta liðsins? „Já, Gwen hefur verið titluð vítaskytta liðsins eftir að Hannah fór. Hún er gríðarlega sparkviss og með góðar spyrnur. Gekk bara ekki upp í gær því miður, það getur klárlega komið fyrir að skora ekki úr víti.“
Þetta var siðasti leikur Gwen fyrir Tindastól. Hvað geturðu sagt okkur um hana og svo Mariu sem kemur í hennar stað? „Gwen var algerlega stórkostleg fyrir okkur og við munum sakna hennar alveg svakalega mikið, bæði sem leikmans en ekki síður sem manneskju. Hún er alveg frábær leikmaður sem við erum mjög stolt af þvi að hafa haft hjá okkur. Hún er nuna að taka stórt skref á sínum ferli og við viljum ekkert nema styðja hana í því.
Mar er reynslumikill leikmaður sem við vonum að muni reynast okkur vel. Hún gefur okkur aðeins öðruvisi möguleika i uppspilinu þar sem hún er örvfætt og mjög góð á boltann. Hún hefur spilað bæði sem vinstri hafsent og lika sem bakvörður og hún hefur getið af sér gott orð sem mikill liðsspilari og skemmtilegur karakter.“
Elísa Bríet hefur verið einn besti leikmaður liðsins í sumar þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára. Hún er núna með U18 landsliðshópi KSÍ í Finnlandi og hefur því misst af tveimur leikjum með Tindastóli í Bestu deildinni. Hvað finnst þér um að leikjum sé ekki frestað vegna leikmanna sem eru í burtu á vegum KSÍ? „Það er i raun lítið gert ráð fyrir því að leikmenn í yngri landsliðum spili svona stórt hlutverk í meistaraflokki svo þess vegna eru yngri landsliða gluggar ekki í svokölluðum landsleikjahléum í deildinni. Það er lítið við þessu að gera og við erum bara mjög stolt að eiga frábæran fulltrúa þó við hefðum viljað eiga fleirri fulltrúa í hópnum.
Mun Tindastóll skoða það að bæta við leikmönnum í glugganum? „Ég myndi klárlega vilja bæta við 1-2 leikmönnum i viðbót við hópinn. Það er heilmikið eftir og mjög mikið í húfi og getur brugðið til beggja vona ef hópurinn er ekki tilbúin til að taka við skakkaföllum á leiðinni. Við erum með háleit markmið, ekki bara fyrir þetta ár heldur er framtíðin okkar mjög björt þar sem við erum með marga unga spennandi leikmenn i bland við mjög sterkan reynslumeiri kjarna á frábærum aldri. Við verðum að halda áfram okkar vegferð í úrvalsdeild því annars er hættan á að missa metnaðarfulla leikmenn okkar í önnur lið og þá er spilaborgin fljót að brotna. Þess vegna tel ég að sé mikilvægt að bæta við 1-2 leikmönnum til að tryggja ennþá sterkari hóp, samkeppni auk þá betri æfingahóp til að bæta leikmenn. Við bættum við 2 leikmönnum á sama tíma i fyrra þeim Mörtu og Beu sem reyndust okkur frábærlega og gerðu gæfumunin að ákveðnu leyti, mín von er sú að við getum gert svipaða hluti í ár. En það skýrist allt á næstu dögum,“ sagði Donni að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.