„Það skortir ekki metnaðinn hjá krökkunum okkar“
Stór hópur skagfirsks íþróttafólks lætur nú hendur standa fram úr ermum á Gautaborgarleikunum í frjálsum, eða Heimsleikum ungmenna, sem fram fara þessa dagana í Gautaborg í Svíþjóð. Feykir setti sig í samband við Ástu Margréti Einarsdóttur, yfirþjálfara yngri flokka frjálsíþróttadeildar Tindastóls, en hún hefur í mörg horn að líta á meðan á mótinu stendur, enda með 23 keppendur á sínum snærum.
Ásta Margrét er 25 ára frjálsíþróttakona sem hefur búið á Sauðárkróki frá sumarlokum 2021 „Er úr Reykjavíkinni en á blessunarlega ættir að rekja í Skagafjörðinn,“ segir hún og bætir við að upprunalega sé hún ÍR-ingur en sé núna stoltur UMSS-ari.
Af hverju ertu í Skagafirði? „Jói minn [Jóhann Björn Sigurbjörnsson frjálsíþróttakappi] er Skagfirðingur og við fluttum á Krókinn til þess að vera nær fjölskyldunni og flýja ys og þys borgarinnar. Við ílengdumst hins vegar af skiljanlegum ástæðum.“
Hún segist hafa hafið frjálsíþróttaiðkun átta ára gömul, haustið 2006. „Ég æfi enn sjálf og þá helst stuttar spretthlaupagreinar. Ég þjálfaði yngri flokka í uppeldisfélaginu mínu, ÍR, frá 2018-2021 og tók síðan við yngri flokkum á öllum grunnskólastigum þegar við fluttum norður haustið 2021. Þetta er mikið draumastarf, enda vinn ég með frábærum börnum og unglingum.“
2639 keppendur á Gautaborgarleikunum
Hvaða mót er þetta sem frjálsíþtóttadeild Tindastóls er að sækja? „Við erum stödd í Gautaborg á Världsungdomsspelan (Heimsleikum ungmenna – Gautaborgarleikunum) sem er stærsta frjálsíþróttamót í Evrópu með, keppnishóp sterkra unglinga auk nokkurra iðkenda úr meistaraflokknum okkar. Á mótinu eru 2639 keppendur frá 22 löndum og eru nokkrir keppendur frá öðrum íslenskum félögum. Til dæmis er Lárey Mara Velemir (12 ára) meðal keppenda en hún æfir með Fram á Skagaströnd.“
Er búið að undirbúa keppnisferðina lengi? „Við tókum ákvörðun um að fara á þetta mót í byrjun sumars í fyrra. Krakkarnir hafa æft markvisst og sýnt mikinn dugnað og elju á æfingum og í keppni. Þau hafa til að mynda tekið æfingar utanhúss í öllum mögulegum veðrum en í vetur hlupu þau til dæmis gegnum storm, snjó og haglél á meðan flestir keppinautar þeirra æfðu innanhúss í frjálsíþróttahöllum. Það skortir ekki metnaðinn hjá krökkunum okkar. Þau hafa síðan sótt flestöll mót sem hafa verið í boði á Íslandi til þess að undirbúa sig fyrir keppnina hérna úti og eignuðumst við til dæmis nokkra Íslandsmeistaratitla í leiðinni. Við höfum síðan safnað fyrir ferðinni með köku- og kaffisölum, snjómokstri og auglýsingum á peysurnar okkar. Það hefur gengið vel og erum við mjög þakklát fyrir þennan stuðning sem við höfum fengið frá samfélaginu okkar.“
Fer frjálsíþróttadeildin oft í keppnisferðir erlendis? „Frjálsíþróttadeildin hefur sótt þetta mót þónokkrum sinnum en stefnan er nú sett á að fara á það annað hvert ár. Næsta ferð verður því að vonum árið 2025. Iðkendur deildarinnar voru í kringum 100 talsins í vetur – Tindastóll og Smári talið saman – á aldrinum 6-16 ára en þetta mót er aðeins fyrir þau sem eru 12 ára á árinu og eldri. Hópurinn okkar í þetta sinn telur 18 unglinga og fimm iðkendur meistaraflokks.“
Eru efnilegir íþróttamenn að æfa með Tindastóli? „Iðkendurnir okkar í UMSS eru mjög efnilegir og framtíðin er sannarlega björt í frjálsíþróttamálum í Skagafirði. Gautaborgarleikarnir eru sterkt mót með keppendum frá fjölmörgum löndum víðsvegar að úr heiminum á þessu ári. Okkar fólk hefur nú þegar náð mjög góðum árangri en Gunnar Freyr Þórarinsson (24 ára) hefur hreppt bronsverðlaunin í bæði spjótkasti og sleggjukasti og Ísak Hrafn Jóhannsson (12 ára) hafnaði í 6. sæti í spjótkasti og 600 metra hlaupi. Í flestum yngri flokkunum eru keppendur vel yfir hundrað talsins í hverri grein svo þetta verður að teljast mjög góður árangur,“ segir Ásta Margrét og bætir við að einn keppnisdagur sé eftir þegar viðtalið er tekið.
Hún segir að mótið standi yfir í þrjá daga, frá föstudagsmorgni til sunnudagskvölds og dagarnir séu því langir á Slottskogsvallen þar sem mótið fer fram. „Ég er eini þjálfari yngri hópsins en Arnar þjálfar meistaraflokkinn, við erum með einn fararstjóra og fjölskyldur ungmennanna fylgdu síðan flest með í ferðina. Yfir keppnisdaginn eru keppendurnir okkar dreifðir í margar greinar samtímis á mismunandi stöðum á vellinum en ég er heppin að Sigurður Arnar Björnsson, þjálfari meistaraflokks, á dóttur í flokknum mínum og hefur hjálpað mér að sinna ómönnuðum vígstöðvum á vellinum þegar ég hef ekki undan og Jói minn hefur einnig gert það. Foreldrarnir og fylgdarlið hafa staðið sig vel í hvatningu.“
Náið þið að gera eitthvað meira en keppa? „Einhverjir úr hópnum hafa náð að kíkja í búðir fram að þessu en á mánudag ætlum við að verja deginum í Liseberg skemmtigarðinum og á þriðjudaginn fara einhverjir úr hópnum að stöðuvatni og busla og einhverjir ætla eflaust í fleiri búðir.“
Allir með á Unglingalandsmótinu á Króknum
Hvað gerir svona keppnisferð fyrir iðkendur? „Svona keppnisferð er ótrúlega góð reynsla fyrir þessa krakka sem stefna á fleiri stórmót í kjölfarið en þau eru til dæmis öll spennt að fara aftur á Gautaborgarleikana eftir tvö ár. Á svona mótum læra börnin hvernig stórmót ganga fyrir sig en iðkendur úr röðum UMSS hafa oft stigið sín fyrstu skref í stórmótakeppni á þessu móti og síðar haldið á Heimsmeistaramót ungmenna, Evrópubikarkeppni landsliða, Norðurlandameistaramót bæði ungmenna og fullorðinna og svo mætti lengi telja. Síðan er þetta frábært hópefli og liðið okkar sem þó hefur alltaf verið samheldið er orðið ennþá nánara.“
Munu flestir keppenda Tindastóls taka þátt í Unglingalandsmótinu á Króknum? „Okkar keppendur ætla allir að keppa á Unglingalandsmótinu um verslunarmannahelgina og hvet ég alla til þess að mæta á frjálsíþróttavöllinn á föstudeginum og laugardeginum og hvetja Skagfirðingana áfram!“ segir Ásta Margrét að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.