Tap á móti Valsmönnum

MYND TEKIN AF FACEBOOK-SÍÐU KKD. TINDASTÓLS
MYND TEKIN AF FACEBOOK-SÍÐU KKD. TINDASTÓLS

Meistaraflokkur karla tók á móti Val sl. föstudagskvöld og var bæði geggjuð mæting og stemning í Síkinu sem minnti helst á úrslitaeinvígið í vor. Fyrir leikinn voru Helga Rafni Viggóssyni þökkuð störf hans fyrir fèlagið og fékk treyjan hans sinn stað uppi í rjáfri en hann hefur spilað hvorki meira né minna en 22 tímabil fyrir félagið. Geri aðrir betur. Farið verður yfir feril Helga Rafns í kynningarblaði Körfuknattleiksdeildar Tindastóls, Stóllinn 2023/2024, sem kemur út á næstu vikum og verður dreift í öll hús á Króknum. 

Þegar styttist í leikinn kom smá kuldahrollur niður bakið á stuðningsmönnum Tindastóls því liðið var að fara að spila án Péturs Rúnars, Sigtryggs Arnars og Davis Geks en þeir eru allir að glíma við meiðsli í fótum. Það var því nokkuð ljóst að þessi leikur yrði Stólunum erfiður því hálft byrjunarliðið vantaði og allir heilir í Valsliðinu að þessu sinni.

Valur byrjaði leikinn af miklum krafti en samt náðu Stólarnir að hanga í þeim og fór fyrsti leikhluti 15-21. Valur var einnig sterkari í öðrum leikhluta og endaði hann 17-26, staðan því í hálfleik 32-47 fyrir Val. Tindastólsmenn mættu mikið ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og var unun að fylgjast með Drungilas því hann lék á als oddi og lauk þriðja leikhluta 22-17. Tindastólsmenn unnu einnig fjórða leikhluta 21-20 en það dugði því miður ekki til gegn feykisterku Valsliði þrátt fyrir slakan leik hjá Acox og Kára, sem spilaði fáar mínútur í leiknum. Lokatölur voru því 75-84 fyrir Val og fyrsta tapið því staðreynd.

Heilt yfir var gaman að sjá leikmenn af bekknum stíga upp og fylla upp í skarðið og stóðu þeir sig allir sem einn frábærlega og börðust fram á síðustu sek. í leiknum. Bæði Ragnar og Tóti eiga risa hrós skilið fyrir sína frammistöðu en Tóti spilaði allan leikinn og blés varla úr nös. Þrátt fyrir tapið þá voru þeir magnaðir allir sem einn. Næsti leikur Tindastóls er fimmtudaginn 2. nóvember gegn Breiðabliki í Kópavoginum sem sitja í neðsta sæti Subway-deildarinnar.

ÁFRAM TINDASTÓLL!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir