Svekkjandi tap hjá Stólastúlkum

Efstu liðin í 1. deild kvenna C riðils, Tindastóll og Völsungur frá Húsavík, áttust við á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi í suðvestan gjólu en þetta var fjórði leikur liðanna í deildinni. Tindastóll hafði fyrir leikinn halað inn 7 stig með tveimur sigrum og einu jafntefli en Völsungur með fullt hús eða 9 stig eftir ótrúlega frammistöðu þar sem mörkin hafa komið á færibandi og markahlutfallið 24 mörk á móti einu. Var því ærið verkefni fyrir heimastúlkur að stöðva sigurgöngu þeirra sem tókst næstum því í hörku leik.

009Það var fyrirfram vitað að gestirnir yrðu erfiðir viðureignar en heimastúlkur sýndu mikinn baráttuvilja og leikurinn hinn skemmtilegasti. Tindastóll lék á móti gjólunni í fyrri hálfleik og átti mjög góðar sóknir sem skiluðu þó ekki marki þótt litlu mátti muna oft á tíðum. Það sama má segja um Völsungsstúlkur en þær voru kannski nær því að skora en hin brasilíska Ana Lucia N. Dos Santos sem stendur í marki Tindastóls í sumar varði mjög vel og má segja að hún hafi bjargað Tindastól frá því að fara með mark á bakinu inn í hálfleikinn.

Stólarnir léku skynsamlega og tóku litla áhættu á móti vindinum en í seinni hálfleik bættu þær í og sóttu meira og voru betra liðið á vellinum lengst af og voru óheppnar að skora ekki. Þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum áttu Stólastúlkur hornspyrnu sem Völsungsstúlkur náðu að verjast og geystust í skyndisókn en markmaður Stólanna bjargaði meistaralega og boltinn hrökk út fyrir teig en vörnin náði ekki að hreinsa boltann í burtu sem endaði í fótum Hafrúnar Olgeirsdóttur. Skaut hún boltanum að marki Stólanna og virtist engin hætta vera á ferðum en í hægðum sínum fór boltinn með snúningi í samskeytin hægra megin og í netið. Mikið svekkelsi á ferðinni þar en heimastúlkur gáfust ekki upp og reyndu hvað þær gátu til að jafna.

Um mínútu síðar áttu þær aukaspyrnu eftir að Anna Halldóra Ágústsdóttir úr liði gestanna fékk að líta gula spjaldið en boltinn sveif rétt yfir mark Völsungs. Undir lok leiksins átti Völsungur skyndisókn og gátu hæglega aukið muninn i 2 – 0 en markvörður Stólanna, sem átti stórleik,varði glæsilega. Skömmu síðar var leikurinn flautaður af og mikið svekkelsi hjá Stólastúlkum sem að mati undirritaðs áttu skilið að fá stig út úr leiknum.

Ástæða er til að hvetja fótboltaáhugafólk til að mæta á leiki hjá stelpunum í sumar en þær hafa á góðu liði að skipa, vel leikandi og baráttan alltaf fyrir hendi og sigurleiki eigum við örugglega eftir að sjá í sumar.

/PF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir