Stórmeistarajafntefli á Króknum en FH-liðið fór heim með bikarinn
Frábærri keppni í Lengjudeild kvenna lauk í kvöld en þá var heil umferð spiluð. Toppliðin tvö sem þegar höfðu tryggt sér sæti í Bestu deildinni að ári mættust á Sauðárkróksvelli í bráðskemmtilegum baráttuleik. Fisk Seafood bauð stuðningsmönnum liðanna á völlinn og alls ekki víst að það hafi fleiri mætt á fótboltaleik á Króknum áður. Lið FH hafði stigs forskot á Stólastúlkur fyrir leikinn og því ljóst að heimaliðið þurfti sigur ætluðu þær sér Lengjudeildartitilinn. Niðurstaðan varð hins annað jafntefli liðanna í sumar, að þessu sinni 2-2, og FH fagnaði því í leikslok.
Það var ljómandi knattspyrnuveður á Króknum og stemningin á vellinum hreint frábær. Fólk mætti snemma til leiks og einhenti sér í hamborgararöðina. Leikurinn fór fjörlega af stað og ljóst að heimaliðið ætlaði að sækja. Lið FH skoraði hins vegar eftir sína fyrstu sókn á 5. mínútu en þá unnu þær boltann á góðum staða eftir slaka spyrnu Amber frá marki,boltanum var rennt inn fyrir vörn Tindastóls og þar var Kristin Schnurr mætt og setti boltann laust í fjærhornið. Smá skellur fyrir heimaliðið en þær héldu áfram að sækja og Hugrún jafnaði metin á 23. mínútu eftir að Aldís María sendi boltann fyrir mark FH. Eftir hálftíma leik náðu gestirnir forystunni á ný. Þá átti leikmaður FH skalla að marki sem Amber náði að blaka frá en hún lenti á illa á stönginni, gestirnir náðu boltanum og Berglind Þrastardóttir náði hörkuskoti sem Amber, sem varla hafði náð áttum, náði ekki að verja. Stólastúlkur pressuðu í kjölfarið og Murr náði að skalla boltann í markið eftir hornspyrnu. Hún var nálægt því að koma sínu liði yfir skömmu síðar en FH bjargaði á línu. Staðan 2-2 í hálfleik.
Baráttan var í algleymingi í síðari hálfleik en leikurinn ekki jafn opinn. Liði Tindastóls gekk ekki nægilega vel að finna taktinn í sókninni og lið FH varðist vel eins og það hefur gert í allt sumar, höfðu aðeins fengið á sig sjö mörk fyrir þennan leik. Það dró svo til tíðinda á 68. mínútu þegar brotið var á Vigdísi Eddu, Stólastúlkunni í liði FH, og hún sparkaði í Hrafnhildi vinkonu sína sem var ekki alveg saklaus. Hrafnhildur fékk að líta gula spjaldið en Vigdís það rauða. Það hefði mátt búast við því að Stólastúlkur næðu að ganga á lagið, að völlurinn opnaðist betur fyrir þær, en það var öðru nær. Lið FH varð hreinlega grimmara og gáfu ekki þumlung eftir. Murr fékk þó gott færi en ágætt skot hennar var varið og loks fékk Aldís færi í uppbótartíma en náði ekki að hitta boltann nægilega vel.
Það voru því ólíkar tilfinningar hjá leikmönnum í lokin þrátt fyrir að þau skiptu stigunum á milli sín. Stólastúlkur voru niðurlútar, fannst sennilega sem gott tækifæri til að ná í bikarinn á heimavelli hefði farið forgörðum. FH-liðið fagnaði hins vegar innilega og tók við bikarnum úr höndum Króksarans Vöndu Sigurgeirsdóttur í lok verðlaunaafhendingar. Þá voru komin blys á loft í stúkunni og stuðningsmenn beggja klöppuðu liðunum lof í lófa eftir frábæra frammistöðu í sumar.
Til hamingju FH og til hamingju Stólastúlkur!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.