Stórleikir í fótboltanum um helgina
Það er stóleikir fyrir liðin af Norðurlandi vsetra í fótboltanum þessa helgina. Húnvetningar ríða fyrstir á vaðið en þeir halda norður á Húsavík og leika þar við sterkt lið Völsungs. Seinna um daginn taka Tindastólsmenn á móti liði Árborgar á Króknum og á sunnudaginn spila Stólastúlkur fyrsta leik sinn í úrslitakeppni neðri liða Bestu deildarinnar þegar Keflvíkingar mæta til leiks.
Kormákur/Hvöt er nú komið í bullandi fallbaráttu í 2. deild og þarf nauðsynlega á stigum að halda. Þeir spila við spræka Húsvíkinga og verður flautað til leiks kl. 13:00. Húnvetningar hugðust stefna að úrvalsreisu með langferðabifreið fullri af hörðustu stuðningsmönnum sínum. Þessum Trjójuhesti hefur nú verið parkerað og hyggjast gestirnir ráðast til atlögu við Húsvíkina vopnaðir einkabílum, væntanlega fullum af glaðbeittum og baráttuglöðum aðdáendum.
Á Sauðárkróksvelli mætast topplið 4. deildar, Tindastóll og Árborg. Stig dugar Stólunum til að tryggja sér efsta sætið í deildinni og sæti í 3. deild að ári. Stólarnir eru einbeittir á leikinn og var ákvðeðið að vera ekki með neitt húllumhæ í kringum leikinn heldur einbeita sér að fótboltanum. Samkvæmt upplýsingum Feykis verður bikarinn fyrir sigur í 4. deild ekki á vellinum og fer því ekki á loft í dag ef svo skemmtilega vill til að úrslitin yrðu Stólunum hagstæð. Kannski er þetta skynsamlegt – og kannski er bara svo ansi langt norður í land. En hvað um það; fjölmennum á völlinn og styðjum strákana til dáða.
Á morgun, sunnudag, mætast sem fyrr segir lið Tindastóls og Keflavíkur í úrslitakeppni neðri liða Bestu deildarinnar. Fjögur lið berjast fyrir lífi sínu í deildinni; Stjarnan (21 stig), Tindastóll (13) og Fylkir og Keflavík (10). Þar sem liðin spila þrjár umferðir er nokkuð ljóst að Stjarnan getur ekki fallið þar sem Keflavík og Fylkir geta að hámarki náð í níu stig og þar með alls 19 stig. Stólastúlkur þurfa nú að sýna hvað í þeim býr, liðið hefur á köflum spilað fínan fótbolta seinni part sumars en sigrarnir hafa látið á sér standa. Nú þurfa stelpurnar okkar stuðning og því þurfa Norðvestlendingar að fjölmenna á völlinn en leikurinn hefst kl. 16:00 á sunnudag.
Koma svo!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.