Stólunum spáð fjórða sætinu í 4. deild

Tindastólsmenn taka á móti Uppsveitum á laugardaginn.
Tindastólsmenn taka á móti Uppsveitum á laugardaginn.

Knattspyrnutæknar í 4. deildinni hefja leik í kvöld en lið Tindastóls á heimaleik á laugardag þegar Uppsveitir mæta í heimasókn. ÍBU Uppsveitir á ættir að rekja til Árnessýslu en liðið var sett á laggirnar haustið 2019. Liðunum var spáð svipuðu gengi í spá þjálfara deildarinnar á Fótbolti.net og má því búast við hörkuleik. Leikurinn hefst kl. 15:00 og er spáð skaplegu veðri.

Í spánni fékk lið Tindastóls 52 stig eða fjórum stigum meira en lið Uppsveita. Þjálfarar virðast hafa mesta trú á liði KFK úr Kópavogi (77 stig) og Valsstrákunum í KH (55 stig). Þá er Árborg (61) spáð þriðja sætinu. Liðum Tindastóls, Vængja Júpíters, Uppsveita og Skallagríms er spáð um miðja deild en reiknað er með að KÁ, Áltanes og Hamar eigi hvað erfiðast uppdráttar í sumar.

Annað form er á 4. deildinni í sumar en verið hefur. Nú spila tíu lið í deildinni en áður spilaðist 4. deildin í nokkrum riðlum sem í voru fimm til átta lið þar sem talsverður getumunur var á bestu og verstu liðunum. Fimmta deildin var því búin til og þar er leikið í tveimur níu liða riðlum. Keppni í 4. deild hefst nú í vikunni og lýkur 7. september.

Alejandro fenginn til að verja markið

Eins og áður hefur verið sagt frá þá tók Dominic Furness við þjálfun Tindastóls í vetur og hefur liðið litið ágætlega út í æfingaleikjum, góður stígandi hefur verið í leik liðsins en eingöngu hefur verið spilað við lið í efri deildum og hafa orðið úr hörkuleikir.

Leikmannahópurinn er svipaður og verið hefur; íslenski kjarninn nánast óbreyttur og Dom og hinir sænsku Örth-bræður á sínum stað. Þeim bræðrum fylgdi til landsins sænskur framherji að nafni Max og auk hans þá mun Dom væntanlega vera spilandi þjálfari en hann er toppleikmaður sem skipti á sínum tíma úr liði Tindastóls í FH.

Reikna má með að splunkunýr markvörður verði frumsýndur á laugardaginn en Alejandro Maqueda, 21 árs Spánverji, hefur samið við Stólana og verður með liðinu í sumar. Samkvæmt upplýsingum Feykis hefur hann verið að spila í neðri deildum á Spáni við góðan orðstír og ku vera tæknilega góður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir