Stólastúlkur unnu Mosfellinga í snjóbolta í Lengjubikarnum í gær
Stelpurnar í Tindastól tóku á móti Aftureldingu við afar krefjandi aðstæður á gervigrasinu á Sauðárkróki í gær er þær áttust við í lokaumferð Lengjudeildar í fótbolta. Stólar eiga reyndar eftir að spila frestaðan leik gegn Keflavíkurstúlkum sem fram á að fara um næstu helgi. Ökkladjúpur snjór, hríðarveður og kuldi er helsta lýsingin á aðstæðum sem boðið var upp á á Króknum að þessu sinni en það létu liðin ekki hafa áhrif á sig og léku af krafti. Sama má segja um alhörðustu stðnigsmennina sem klæddu sig eftir aðstæðum og studdu við bakið á heimastúlkum. Það skilaði sér því Stólarnir voru mun líklegri til að setja boltann í netið í fyrri hálfleik.
Það voru hins vegar gestirnir sem mættu grimmari á völlinn eftir hálfleikshléið og áttu nokkur góð færi sem þó rötuðu ekki inn í markið. En Stólar voru ekki á því að leyfa Mosfellingum að skora nem þá í eigið mark sem einmitt varð raunin á 65. mínútu þegar Alexandra Austmann Emilsdóttir varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið mark eftir fyrirgjöf inn í teig gestanna.
Seinn mark Stóla kom eftir rúman stundarfjórðung þegar Aldís María Jóhannsdóttir stangaði knöttinn af alefli í netið eftir sendingu hinnar ungu og bráðefnilegu Elísu Bríetar Björnsdóttur frá Skagaströnd, sem nýkomin var inn á og staðan orðin 2-0 sem hélst allt til loka.
Eftir leikinn situr Tindastóll í 4. sæti með tvo unna leiki en gæti með sigri eða jafntefli um næstu helgi hrifsað þriðja sætið úr höndum ÍBV, sem leikið hefur alla sína leiki en liðin eru nú jöfn að stigum.
Feykir sendi skeyti á Bryndísi Rut Haraldsdóttur, fyrirliða Stóla, og byrjaði á spyrja út í aðstæður.
„Ég held að þetta séu með því krefjandi aðstæðum sem ég hef lent í, þar sem þessi snjór festist allur í takkaskónum og boltinn breytist í snjóbolta! Mér fannst við tækla þessar aðstæður vel, reyndum að spila okkar leik og var oft hægt að sjá góða hluti þrátt fyrir aðstæður.“
Þrátt fyrir þetta var Bryndís mjög ánægð með leik liðsins.
„Við börðumst allan leikinn og náðum að æfa nokkur ákveðin atriði. Undirbúningstímabilið er búið að vera ágætt, finnst veðrið að vísu hafa leikið okkur grátt með völlinn. Það var erfitt í lok des og janúar að æfa sökum snjó eða kulda. Við höfum gert það besta úr því, náð að moka okkur svæði eða reynt að nýta svalirnar inni í íþróttahúsi. Veit að margir horfa á úrslitin í æfingarleikjunum en við höfum verið að vinna í ákveðnum hlutum og æfa okkur í, sem hefur borið mikinn árangur og er ég mjög ánægð með framfarir liðsins.“
Í lokin vill Bryndís koma þökkum til þeirra sem mættu á leikinn og studdu liðið og ekki síst fyrir að moka völlinn í hálfleik, en fjölmargir stukku til og gripu í snjósköfurnar og náðu að hreinsa vítateigana og fleira til. „Það gerði mjög mikið fyrir okkur og minnkaði slysahættuna um helling,“ segir Bryndís þakklát. Vel gert stuðningsfólk!
Hér fyrir neðan má sjá brot af því sem fyrir augu bar á fannhvítum vellinum í gær, þ.m.t. fyrra mark leiksins.
Þær voru nokkuð krefjandi aðstæðurnar þegar Stólar tóku á móti Aftureldingu í gær í Lengjubikarnum á Króknum. En leikurinn vannst 2-0.
Posted by Páll Friðriksson on Sunnudagur, 19. mars 2023
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.