Stólastúlkur unnu mikilvægan útisigur á Snæfelli
Stólastúlkur hófu leik í úrslitakeppni um sæti í Subway-deild kvenna á Stykkishólmi í kvöld. Leikurinn átti að fara fram í gær en var frestað vegna ófærðar en það virtist ekki trufla lið Tindastóls á nokkurn hátt. Þær komu helgrimmar til leiks, náðu fljótt undirtökunum í jöfnum og spennandi leik og létu sér hvergi bregða í þau örfáu skipti sem heimaliðið komst yfir. Stólastúlkur náðu tíu stiga forystu fyrir lokaleikhlutann og héldu gestgjöfunum í seilingarfjarlægð allt til loka. Mikilvægur sigur, 73-82, og næst verður heimaleikur í Síkinu á miðvikudagskvöld.
Það mætti halda að lið Snæfells hafi vanmetið liðið sem hafnaði í 4. sæti 1. deildar því lið Tindastóls gerði átta fyrstu stigin og leiddi snemma 1-10. Shawnta Shaw tók þá til sinna ráða og skoraði grimmt og hún kom heimastúlkum yfir, 16-15, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Aftur náðu Stólastúlkur forystunni og leiddu 19-23 þegar annar leikhluti hófst. Lið Snæfells jafnaði leikinn snemma og komst yfir 29-28 en Emese Vida svaraði og í kjölfarið komu tveir þristar frá Brynju Líf og staðan 29-36. Staðan í hálfleik var síðan 38-43 og lið Tindastóls í góðri stöðu.
Lið Tindastóls hóf síðan síðari hálfleik enn betur en byrjun leiksins. Nú gerðu þær ellefu fyrstu stigin og náðu 16 stiga forystu. Klara Sólveig Björgvins var þar af með tvo þrista, Kasapi einn þrist og Inga Sólveig einn tvist. Nú voru Snæfellingar komnir með bakið upp að vegg. Þær náðu muninum niður í átta stig en aftur svöruðu Stólastúlkur með góðum kafla og leiddu, 53-63, fyrir lokakaflann. Tvívegis náði lið Snæfells að minnka muninn í sex stig fyrri part fjórða leikhluta en í bæði skiptin svaraði Brynja Líf með þristi og slökkti vonarneista heimaliðsins sem komst eftir þetta aldrei nálægt því að eiga álitlegt áhlaup.
Frábær leikur hjá liði Tindastóls og nú verður spennandi að sjá hvort Snæfellingar ná að rísa úr þessari öskustó. Enn vantaði Aniku og Evu Rún í lið Tindastóls og sigurinn því kannski enn sætari. Stigahæst í liði Tindastóls var Ifunanya Okoro en hún gerði 25 stig, tók sjö fráköst og átti sex stoðsendingar. Emese Vida var með 20 stig og tólf fráköst og þá kom Brynja Líf með frábært framlag af bekknum, gerði 16 stig og tók fimm fráköst. Í liði Snæfells var Shaw með 34 stig og níu fráköst.
Ný áskorun og nýjar hetjur í hverjum leik
Feykir hafði samband við Helga þjálfara Margeirs og bað um viðbrögð við sigurleik í Stykkishólmi. „Ég var mjög ánægður með hvernig stelpurnar nálguðust leikinn. Vorum tilbúnar í byrjun og náðum að keyra vel á körfuna og dreifðist skorið vel. Það tók svo smá tíma að átta sig á Shaw hjá Snæfell en hún er öskufljót og erfið viðureignar en stelpurnar spiluðu heilt yfir mjög góða liðsvörn sem skóp sigurinn.“
Hvernig leggst leikur 2 í þig? „Leikur 2 leggst mjög vel í mig en hver leikur verður ný áskorun og nýjar hetjur í hverjum leik. Ég á svo von á að Síkið taki vel á móti liðinu á miðvikudaginn og stelpurnar fái stuðning eins og Síkið getur best af öllum heimavöllum á Íslandi!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.