Stólastúlkur unnu Hamar/Þór Þ. með minnsta mögulega mun

Ify í vítaskoti í leiknum á móti Hamar/Þór Þ. MYND SG
Ify í vítaskoti í leiknum á móti Hamar/Þór Þ. MYND SG
 

Það var fínasta mæting í Síkið í gær þegar Stólastúlkur tóku á móti Hamar/Þór Þ., miðvikudaginn 8. nóvember. Hammararnir seldust upp og mikil spenna fyrir leiknum því gestirnir sátu í 2. sæti í deildinni og Stólastúlkur hafa verið að sækja í sig veðrið í síðustu leikjum og því von á kröftugum leik.

Í fyrsta leikhluta var jafnræði með liðunum en leikhlutinn endaði 18-19 fyrir Hamar/Þór Þ. Í öðrum leikhluta duttu Stólastelpur smá niður og gestirnir voru fljótir að nýta sér það og unnu leikhlutann 15-22, staðan því í hálfleik 33-41 fyrir gestunum. Stólastelpur komu mikið ákveðnari til leiks í þriðja leikhluta og var leikurinn búinn að vera, framan af, þannig að gestirnir voru með yfirhöndina en stelpurnar náðu samt alltaf að taka góð áhlaup inni á milli og minnka muninn, Tindastóll vann þriðja leikhlutann 16-11. Staðan því fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 49-52. Baráttan var orðin mjög mikil á síðustu mínútunum og það var ekki fyrr en 30 sek. voru eftir af leiktímanum sem Stólastúlkur náðu loksins að komast yfir. Gestirnir fengu nokkur tækifæri til að jafna leikinn því þegar 17 sek. voru eftir af leiknum fengu þær tvö vítaskot en sem betur fer datt bara annað niður hjá þeim og lokatölur 67-66 fyrir Tindastól. Glæsilegur sigur hjá stelpunum og með þessu áframhaldi ættum við að sjá þær berjast á toppi deildarinnar innan skamms.

Það var ekki annað að sjá en að nýju leikmennirnir Ify og Adriana séu að gera góða hluti fyrir liðið því Ify skoraði 21 stig, var með níu fráköst og þrjár stoðsendingar. Adriana Kasapi var með 13 stig, sjö fráköst og tvær stoðsendingar. Emese Vida var sú eina sem kom sér í smá villuvandræði í leiknum en skoraði 13 stig og tók 12 fráköst. Eva Rún skoraði sjö stig var með sjö fráköst og fjórar stoðsendingar. Brynja Líf skoraði fimm stig og tók þrjú fráköst. Rannveig skoraði fjögur stig og tók eitt frákast. Aníka skoraði tvö stig og tók átta fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Inga Sigríður skoraði tvö stig og tók tvö fráköst.

Eftir leikinn hoppuðu Stólastúlkur upp í 5. sæti deildarinnar en næsti leikur er á móti Ungmennaflokki Keflavíkur í Síkinu laugardaginn 18. nóvember kl. 18:00. Keflavík situr í 6. sæti eftir leik gærdagsins þegar þær unnu KR sem situr á toppi deildarinnar.

 
Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir