Stólastúlkur mæta liði Selfoss í Mjólkinni
Dregið var í 16 liða úrslit í Mjólkurbikar kvenna fyrr í vikunni. Það voru þær Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, og Ásta B. Gunnlaugadóttir sem höfðu veg og vanda að því að draga rétt og það tókst með ágætum því lið Tindastóls fékk heimaleik. Andstæðingurinn reyndar annað lið úr Bestu deildinni en Stólastúlkur taka á móti liði Selfoss laugardaginn 28. maí á Sauðárkróksvelli.
Þegar hafa þegar verið leiknar tvær umferðir í Mjólkurbikarnum en það er einmitt í þriðju umferð sem liðunum í Bestu deild kvenna er bætt út í pottinn. Lið Tindastóls og Selfoss eru því að spila sinn fyrsta leik í bikarnum í lok maí.
Framstúlkur Óskars Smára í góðum gír
Hingað til hefur það helst gerst í Mjólkurbikarnum að lið Fram, sem Óskar Smári Haraldsson frá Brautarholti stjórnar, hefur komið skemmtilega á óvart. Fram tryggði sér sæti í Lengjudeildinni í fyrsta skipti síðastliðið haust. Í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins mætti Óskar Smári félaga sínum og fyrrum samþjálfara hjá Stólastúlkum, Guðna Þór Einarssyni, sem nú þjálfar HK. Lið Fram gerði sér lítið fyrir og vann sterkt lið HK 3-1 og fylgdi því eftir með sigri á liði Aftureldingar, sem var í Bestu deildinni í fyrra. Sá leikur vannst í framlengingu.
Óskar Smári segist svo sannarlega hafa vonast til þess að mæta Tindastólsliðinu, þar sem Bryndís Rut systir hans er fyrirliði, og helst á Króknum. Hann er ánægður með lið Fram. „Mér finnst við hafa styrkt okkur með réttu leikmönnunum og erum með ansi skemmtilegt og í raun bara öflugt lið.“
Í þriðju umferðinni mætir lið Fram Blikum sem hafa á að skipa gríðarsterku liði. Þegar blaðamaður bendir á að mögulega gætu lið Fram og Tindastóls mæst í fjórðu umferðinni segir Óskar Smári aldrei að vita og bætir síðan við að síðast þegar hann þjálfaði lið sem spilaði við Breiðablik í 16 liða úrslitum bikars þá hafi heimastúlkur byrjað að tejfa upp við hornfána á 90. mínútu eftir að hafa skorað mark á 85. mínútu. „Ég ætla að hafa þetta öfugt núna!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.