Stólastúlkur í stuði og komnar í lykilstöðu
Í kvöld mættust lið Tindastóls og Snæfells öðru sinni í fjögurra liða úrslitum um sæti í efstu deild körfunnar. Lið Tindastóls sótti sterkan sigur á heimavöll Snæfells í fyrsta leik og í kvöld bættu Stólastúlkur um betur og unnu öruggan sigur þar sem þær leiddu allan leikinn. Grunnurinn að sigrinum var lagður í fyrsta leikhluta þar sem heimastúlkur náðu 16 stiga forystu. Lokatölur voru 75-60 og staðan í einvíginu því 2-0 fyrir Tindastól.
Helgi þjálfari lofaði nýrri áskorun og nýjum hetjum og það stóð heima. Klara Sólveig var búin að setja þrjá þrista á fyrstu tæpu fimm mínútunum en hún og Rannveig gerðu báðar 14 stig í leiknum og munaði um minna þar sem hvorki Emese né Andriana fundu fjalirniar sínar. Eftir að staðan var 8-6 þegar þrjár og hálf mínúta var liðin þá kom 16-2 kafli hjá liði Tindastóls sem leiddi 24-8 að loknum fyrsta leikhluta. Lið Snæfells svaraði vel fyrir sig í upphafi annars leikhluta og minnkaði muninn í þrjú stig, 31-28, en þá kom annar góður kafli heimastúlkna þar sem Klara Sólveig og Rannveig léku stóra rullu. Staðan 44-30 í hálfleik.
Lið Tindastóls átti góða byrjun á seinni hálfleiknum, gerði níu stig gegn tveimur gestanna, og munurinn orðinn 21 stig. Þrátt fyrir að Helgi væri duglegur að skipta mínútum milli Stólastúlkna þá náðu gestirnir lítið að ógna forystunni. Þær komu muninum niður í 13 stig, 70-57 þegar þrjár mínútur voru eftir, en Brynja Líf svaraði með þristi og þar með voru vonir gestanna um endurkomu slökktar.
Okoro var stigahæst í lið Tindastóls með 17 stig og hún tók átta fráköst. Klara Sólveig og Rannveig voru báðar með 14 stig, Brynja Líf og Inga Sigríður voru báðar með átta stig, Andriana og Emese með sex stig hvor en Emese 16 fráköst og loks var Inga Sólveig með tvö stig. Í liði Snæfells var Shaw stigahæst með 24 stig, hún spilaði hverja sekúndu í leiknum en í kvöld þurfti hún að hafa meira fyrir hlutunum gegn vörn Tindastóls en í fyrsta leiknum.
Næst mætast liðin í Stykkishólmi á sunnudag en þá getur lið Tindastóls mögulega tryggt sæti sitt í úrslitarimmunni. Á sama tíma tekur lið Aþenu á móti KR. Allt stefndi í annan sigur Aþenu á Vesturbæingum í kvöld en þær leiddu 59-75 þegar skammt var eftir. Það var hins vegar lið KR sem gerði sjö síðustu stig leiksins og jafnaði einvígið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.