Stólastúlkur í annað sætið

Stelpurnar í Tindastól fullkomnuðu góðan dag félagsins er þær lögðu Hattarstúlkur frá Egilsstöðum sannfærandi á Sauðárkróksvelli á laugardaginn en lokatölur urðu 5-2. Fyrr um daginn tók 3.fl. karla á móti BÍ/Bolungarvík og sigraði 6-0 og meistaraflokkurinn sótti Aftureldingu heim í Mosó og unnu með tveimur mörum gegn einu.

Það var ekki að sjá í upphafi leiks hjá stelpunum að gestirnir vermdu neðsta sæti deildarinnar því þær komu mun ákveðnari til leiks og skoruðu fljótlega eftir að dómarinn flautaði leikinn á og var þar á ferðinni Kristín Inga Vigfúsdóttir. Hugrún Pálsdóttir jafnaði þó leikinn fjórum mínútum síðar er hún fékk sendingu inn fyrir vörn gestanna og lagði boltann í hægra hornið. En ekki liðu nema þrjár mínútur þegar Emma Hewett kom Hattarstelpum yfir aftur og staðan því 2-1 eftir aðeins 13 mínútur.

Þrátt fyrir að Hattarstelpur væru líklegri til að auka muninn tókst heimastúlkum að verjast og ná einni og einni sókn. Í einni slíkri lentu Hugrún og Steinunn Lilja Jóhannesdóttir markmaður Hattar í samstuði með þeim afleiðingum að sú síðarnefnda var borin meidd af velli og kom ekki meira við sögu leiksins. Í hennar stað fór útileikmaður í markið og hafði það sín áhrif á gang leiksins því Stólastúlkur komust meira inn í leikinn og uppskáru mark í blálok fyrri hálfleiks þegar Guðrún Jenný Ágústsdóttir afgreiddi boltann í netið eftir að gestunum mistókst að hreinsa teiginn eftir hornspyrnu. Vel gert og jafnt komið á með liðunum í hálfleik 2-2.

Í seinni hálfleik var allt önnur stemning í liði heimastúlkna því þær mættu mun grimmari til leiks og sköpuðu sér mörg góð færi meðan gestirnir gerðu lítinn usla. M.a. átti Kolbrún Ósk Hjaltadóttir gott skot sem endaði í hliðarnetinu og markmaður Hattar gerði vel fyrir sitt lið er hún varði frá Hugrúnu sem komin var í dauðafæri. En á 48. mínútu bættu þær fyrir sig er Kolbrún skoraði eftir að hafa fengið góða sendingu inn fyrir vörnina frá Hugrúnu og kom Tindastól yfir 3-2. Þegar 63 mínútur voru liðnar af leiknum fiskaði Guðrún Jenný víti þegar hún var felld innan vítateigs og skoraði Svava Rún Ingimarsdóttir örugglega úr því og staðan orðin vænleg fyrir Stólana 4-2.

Eftir margar góðar sóknir og nokkur langskot heimastúlkna á markið náði Hugrún að bæta sínu öðru marki við eftir að hafa stungið vörnina af og laumað boltanum framhjá markmanni Hattar og í bláhornið og innsiglaði þar sigur Stólanna á annars ágætum andstæðingum.

Með sigrinum tyllti Tindastóll sér í annað sætið í riðlinum með 13 stig eftir 6 leiki, stigi ofar en Hamrarnir en Völsungur hefur stungið af með fullt hús stiga eða 21 stig eftir 7 leiki. Tindastóll hefur góðu liði á að skipa, þéttri vörn, leikandi miðju og ógnandi sókn þegar best lætur og varamennirnir veikja ekki liðið þegar þeim er teflt fram svo búast má við því að annað sætið verði ekki látið af hendi svo auðveldlega. Áfram Tindastóll!

/PF

Helga Dóra Lúðvíksdóttir smellti nokkrum myndum á leiknum, þær má sjá hér fyrir neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir