Stólastúlkur heimsækja Austurberg Aþenu í kvöld
„Það eru allir spenntir fyrir fyrsta leiknum,“ segir Israel Martin, þjálfari kvennaliðs Tindastóls í körfunni, en lið hans spilar í kvöld fyrsta leik sinn í efstu deild körfuboltans á þessari öld. Þrjú lið fóru upp úr 1. deildinni í vor; Hamar/Þór vann deildina, lið Aþenu sigraði úrslitaeinvígi um laust sæti og hafði þá betur í hörku bardaga gegn liði Tindastóls. Síðan gerðist það að Fjölnir dró lið sitt í efstu deild úr keppni og þá var laust sæti fyrir Stólastúlkur.
Miklar breytingar eru á mannskap hjá liði Tindastóls en fimm erlendir leikmenn eru hjá liðinu. Allar þrjár erlendu stúlkurnar sem léku með liðinu í fyrra eru farnar og þá hafa Eva Rún, Aníta og Inga Sigríður haldið suður yfir heiðar og leika því ekki með liði Tindastóls í vetur. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir nýjan þjálfara liðsins en þó nokkuð kunnuglegan en Israel Martin tók við taumunum af Helga Margeirs nú í sumar.
„Undirbúningstímabilið hefur ekki verið alveg eins og við vildum. Við spiluðum aðeins tvo vináttuleikir og í rauninni höfum við ekki getað spila 5 á 5 á æfingum vegna meiðsla og brottfara leikmanna. Við getum enn ekki verið með fullan hóp á æfingum en við erum að vinna hörðum höndum í okkar málum og einbeita okkur að hlutum sem við getum stjórnað.“
Tveir nýir leikmenn komu til liðs við hópinn í síðustu viku og tveir héldu heim. Eru nýju leikmennirnir í góðu formi? „Melissa og Randi munu hjálpa okkur. Þær spila í tveimur af mikilvægari stöðunum í liðinu. Þær æfa vel en þurfa tíma til að aðlagast liðinu. Við erum í rauninni næstum því nýtt lið eftir að þær komu inn.
Það eru mörg ný andlit í liði Tindastóls. Ertu að ná að púsla saman samkeppnishæfu liði og hvert er markmiðið fyrir veturinn? „Við erum í góðum málum, við þurfum bara tíma til að þekkjast betur og komast í leikform. Markmið okkar er að koma á stöðugleika í verkefninu í efstu deild og vera skemmtilegt lið að horfa á spila körfubolta.“
Við mætum liði Aþenu í kvöld á útivelli en í næstu viku kemur lið Stjörnunnar í Síkið. Hvað vonastu til að sjá frá þínu liði og stuðningsmönnum þess? „Stjarnan spilaði í úrslitakeppninni á síðasta tímabili þannig að við erum að fá eitt besta lið deildarinnar í heimsókn á Sauðárkrók í byrjun tímabils. Það sem við þurfum að einbeita okkur að er okkar leikur, sama hvað. Við þurfum að verða betri með hverjum deginum á æfingum og byggja á því. Við viljum gefa öllum liðum leik og það er mjög mikilvægt fyrir aðdáendur okkar að sjá. Ég er viss um að okkar fólk mun mæta á leikinn og styðja liðið,“ segir Martin þjálfari.
Leikurinn fer fram í Austurbergi í Breiðholti og hefst kl. 19:15. Þetta er fyrsti leikur beggja liði í efstu deild á þessari öld en lið Aþenu en reyndar vart komið af leikskólaaldrinum í sinni sögu. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.