Stólarnir þurfa að leiðrétta kúrsinn
Tindastólsmenn tóku á móti góðu Keflavíkurliði í Síkinu í gærkvöldi og vonuðust stuðningsmenn Stólanna eftir því að leikmenn hefndu ófaranna gegn Val á dögunum, kæmu ákveðnir til leiks og sýndu Keflvíkingum í tvo heimana. Ekki gekk það eftir. Heimamenn leiddu í hálfleik en í síðari hálfleik gekk hvorki né rak og Keflvíkingar unnu þægilegan sigur. Lokatölur 75-84. Nú er komið að því að hrökkva eða stökkva, lið Tindastóls er vel skipað en eitthvað er augljóslega ekki að virka.
Staðan var reyndar svipuð á sama tíma fyrir ári og eftir smá uppstokkun hrukku Stólarnir í gírinn og framhaldið þekkja flestir – Stólarnir skelltu sér á brimbrettið og riðu ölduna baráttuglaðir og brosandi með meiripart þjóðarinnar með sér á brettinu. Þessi tilfinning er ekki til staðar í dag og svo langt frá því öruggt að liðið finni svipaða öldu aftur þegar vorið nálgast.
Fá lið í deildinni búa yfir meiri breidd en lið Tindastóls eða meiri gæðum. Sennilega hefðu flestir stuðningsmenn Stólanna talið liðið vera eitt af þremur best skipuðu liðum deildarinnar fyrir tímabilið, á pari við Keflavík og Val. Með sterkan heimavöll og frábæran stuðningsmannahóp sem mætir alltaf, allstaðar, hefðu fá lið átt að standast Stólunum snúninginn. Staðreyndin er aftur á móti sú að liðið virkar hálf litlaust. Hvar er gamla góða Tindastólshjartað sem menn hafa státað af í gegnum tíðina? Er einum erlendum leikmanni of mikið í liðinu? Er þjálfarinn ekki að ná til leikmanna? Eru menn að bíða eftir úrslitakeppninni og ætla bara að kveikja á sér þá?
16% 3ja stiga nýting ekki vænleg til árangurs
Stólarnir fóru ágætlega af stað í gær, komust í 20-13 eftir þrist frá Arnari en Keflvíkingar svöruðu með átta stigum og komust yfir. Staðan þó 22-21 að loknum fyrsta leikhluta og áfram var leikurinn hnífjafn í öðrum leikhluta en heimamenn þó oftar en ekki skrefinu á undan. Staðan í hálfleik 45-43. Fyrstu mínútur þriðja leikhluta var leikurinn í járnum en Keflvíkingar voru með tromp upp í erminni – jafnvel sitt hvort trompið í sitt hvorri erminni. Halldór Garðar var ólseigur en mestu munaði þó um Igor Maric sem var sjóðheitur utan 3ja stiga línunnar og setti niður sex þrista í níu tilraunum. Það var einfaldlega einum þristi meira en allt Tindastólsliðið gat státað af í 32 skotum (16% nýting)! Keflvíkingar voru yfir 58-65 að loknum þriðja leikhluta og voru fljótlega búnir að ná 10-12 stiga forystu í þeim fjórða og Stólarnir hreinlega aldrei nálægt því að brúa bilið það sem eftir lifði.
Drungilas var í raun eini leikmaður Stólanna með sæmilegt framlag í gær – enda Milka í hinu liðinu. Kappinn var með 20 stig og ellefu fráköst. Keyshawn spilaði tæpar 34 mínútur en tók aðeins átta skot í leiknum, endaði með 12 stig og þrjú fráköst. Zoran var með 13 stig á rúmum 15 mínútum (þar af sjö af vítalínunni) en aðrir fundu ekki fjölina góðu. Aðeins þrír leikmenn Tindastóls voru með yfir tíu framlagspunkta í leiknum; Drungilas, Zoran og Pétur. Igor Maric var stigahæstur í liði Keflavíkur með 23 stig, Okeke skilaði 14 stigum og Milka 13.
Lið Tindastóls er nú í sjöunda sæti Subway-deildarinnar með 12 stig eftir 12 leiki. Það er langt frá þeim stað sem flestir sáu fyrir sér í byrjun tímabils. Nú hefur liðið tapað tveimur leikjum í röð á heimavelli en reyndar gegn tveimur bestu liðum deildarinnar. Sennilega hafa ekki margir áhyggjur af því að Stólarnir skili sér ekki í úrslitakeppnina en þó augljóst að ekki dugir að láta reka á reiðanum – leiðrétta þarf kúrsinn í hvelli. „Við eigum 14 daga frí núna og ætlum að nota það,“ sagði Vlad, þjálfari Tindastóls, í samtali við Vísi að leik loknum og gaf í skyn að breytingar á liðinu yrðu skoðaðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.