Stólarnir sýndu flotta takta gegn Hetti
Tindastóll og Höttur frá Egilsstöðum mættust í Síkinu sl. mánudagskvöld. Það var til mikils að vinna fyrir gestina sem hefðu getað komist upp að hlið Stólanna í Subway-deildinni með sigri og verið með betri stöðu í innbyrðisviðureignum liðanna ef úrslitin hefðu fallið með þeim. Svo fór ekki því Stólarnir sýndu sparihliðarnar með Arnar ómótstæðilegan í gamla góða hamnum og ólíkt leiknum gegn Stjörnunni á dögunum þá héldu heimamenn dampnum allt til enda, bættu jafnt og þétt í og enduðu á að vinna öruggan sigur. Lokatölur 109-88.
Lið Hattar er ágætlega skipað í vetur og hefur verið að ná eftirtektarverðum árangri. Þannig komst liðið í úrslit VÍS bikarsins í Laugardalshöllinni, þar sem liðið fann reyndar engar fjalir, og þeir Hattarar hafa verið að daðra við sæti í úrslitakeppninni. Þeir fóru betur af stað í leknum en um miðjan fyrsta leikhluta náðu Stólarnir vopnum sínum og Pétur jafnaði leikinn 11-11 með sínum öðrum þristi. Svo duttu Arnar og Geks í gírinn og Stólarnir sigu fram úr. Bæði lið skutu bísna vel fyrir utan 3ja stiga línuna og döðruðu við 50% nýtingu en Stólarnir skutu talsvert fleiri skotum og hirtu reyndar mun fleiri fráköst (41/24). Enn var allt í járnum eftir fyrsta leikhluta, staðan 28-25, en eftir um tveggja mínútna leik í öðrum leikhluta náðu Stólarnir flottum 11-0 kafla þannig að um miðjan leikhlutann var munurinn orðinn 13 stig. Gestirnir náðu ágætu áhlaupi og minnkuðu muninn í 46-42 en þá kom 10-3 kafli hjá heimamönnum sem leiddu 56-45 í hálfleik.
Næst á dagskrá var þriðji leikhluti sem Stólarnir hafa verið að basla með í vetur. Nú brá svo við að heimamenn gerðu vel, héldu muninum til að byrja með í um tíu stigin og stungu svo af í kjölfarið því munurinn var kominn í 22 stig um miðjan þriðja leikhluta, staðan 73-51. Leikmenn Hattar reyndu að vinna á muninum en þeirra áhlaup skiluðu litlum árangri og munurinn varð aldrei minni en 15 stig. Staðan var 82-65 fyrir loka leikhlutann og það fór svo að Pavel gat gefið öllum sínum köppum séns á að stíga dansinn.
Arnar var atkvæðamestur Stólanna að þessu sinni með 32 stig, hann var 6/10 í 3ja stiga skotum og átti að auki sex stoðsendingar. Keyshawn var með 18 stig og fimm stoðsendingar og David Geks endaði með 14 stig og þar af fjóra þrista. Þá var Drungilas með tíu stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar. Taiwo var með tólf stig og Axel skellti í tíu stig á rúmum ellefu mínútum. Hjá gestunum var Bryan Alberts stigahæstur með 20 stig, Guers 15 og Adam Eiður 14.
Með sigrinum lyftu Stólarnir sér upp í fimmta sæti deildarinnar, með jafn mörg stig og Blikar eða 16 punkta. Þar fyrir neðan eru síðan Stjarnan og Grindavík með 14 stig og Þór Þorlákshöfn og Höttur síðan með 12 stig. Það stefnir því í hörkubaráttu um sætin í úrslitakeppninni. Það er leikur í Síkinu strax í kvöld en þá mæta Grindvíkingar til leiks og hefjast herlegheitin kl. 19:15. Allir í Síkið og áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.