Stólarnir spiluðu sambabolta í blíðunni á Króknum

Stólarnir voru ekkert franskbrauð í gær. Hér tekur Jón Gísli einn Hvergerðing á bakið. MYND: ÓAB
Stólarnir voru ekkert franskbrauð í gær. Hér tekur Jón Gísli einn Hvergerðing á bakið. MYND: ÓAB

Það sló í 20 gráðurnar á Króknum í gær þegar Tindastóll og Hamar mættust í 4. deildinni og því upplagt að spila sambabolta. Sem var það sem leikmenn Tindastóls gerðu því strákarnir sýndu lipra takta og skoruðu fimm gullfalleg mörk sem glöddu óvenju fjölmennan hóp stuðningsmanna sem skemmti sér hið besta á leiknum. Lokatölur voru 5-1 fyrir heimamenn sem hafa nú komið sér fyrir í efri hluta deildarinnar.

Stólarnir létu boltann ganga hratt og í fáum snertingum frá upphafi og höfðu skapað sér nokkur ágæt tækifæri áður en fyrsta markið leit dagsins ljós á 21. mínútu. Þá kláraði Sigurður Pétur frábæra sókn með hörkuskoti utan teigs. Aðeins þremur mínútum síðar tættu Stólarnir vörn gestanna í sig og Addi Ólafs afgreiddi sitt færi af öryggi. Þriðja mark Tindastóls kom á markamínútunni en þá setti Jónas Aron punktinn fyrir aftan enn eina glæsisókn sinna manna. 3-0 í hálfleik.

Dom þjálfari skipti sjálfum sér út af í hálfleik og Jón Gísli Stefáns kom inn á sem reyndist snilldarskipting því kappinn hafði slúttað enn einni prýðissókn Stólanna fjórum mínútum eftir að hann steig á völlinn. Fékk boltann utan teigs og negldi á markið og markvörður Hvergerðinga réð ekki við þrumufleyginn. Eftir þetta gíruðu Stólarnir sig aðeins niður og einbeitingin og ákafinn var ekki sá sami og í fyrri hálfleik. Það má aldrei slaka á því gestirnir poppuðu upp með mark nánast upp úr engu á 52. mínútu en voru nú aldrei líklegir til afreka í leiknum. Sigurður Pétur, stóri bróðir Jóns Gísla, kláraði markaskor leiksins þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum og það var eitt fallegasta mark sem sést hefur á gervigrasinu á Króknum. Fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Hamars og þrumaði upp í bláhornið vinstra megin. Stólarnir fengu nokkur fín færi það sem eftir lifði en mörkin urðu ekki fleiri.

Það var ekki veikan blett að finna á liði Tindastóls í gær, helst að menn þurfi að vanda sig við að halda einbeitingu. Vörnin var traust og sóknarleikurinn lengstum stórskemmtilegur og hraður en oftar en ekki byrjaði spilið út frá vörn og síðan voru allir leikmenn virkjaðir til þátttöku. Að öðrum ólöstuðum er rétt að nefna að Sigurður Pétur var hreint frábær í leiknum. Lið Tindastóls og Hamars voru jöfn að stigum, með átta stig, fyrir leik en það var eiginlega himinn og haf á milli þeirra í fótboltagæðum í gær.

Eftir að hafa spilað sjö leiki í deildinni eru Stólarnir með ellefu stig og sitja í fimmta sæti. Í næstu tveimur leikjum mæta strákarnir liðunum í þriðja og fjórða sæti, KFK og KÁ og það verða mikilvægir leikir fyrir Tindastól ef þeir ætla að blanda sér í. toppbaráttu 4. deildar fyrir alvöru. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir