Stólarnir í átta liða úrslit Fótbolta.net bikarsins

Jónas Aron og félagar fagna fyrsta markinu. Svo mega nú Stólarnir aðeins fara að kveikja í stuðningsmönnum sínum með því að fagna fyrir framan þá. Fá pínu stemmara! MYND: ÓAB
Jónas Aron og félagar fagna fyrsta markinu. Svo mega nú Stólarnir aðeins fara að kveikja í stuðningsmönnum sínum með því að fagna fyrir framan þá. Fá pínu stemmara! MYND: ÓAB

Það var boðið upp á hörkuleik á Króknum í gær þegar lið Tindastóls tók á móti Hlíðarendapiltum í KH í Fótbolti.net bikarnum þar sem neðri deildar lið mætast. Stólar og KH leika bæði í 4. deildinni en bæði lið léku ágætan fótbolta í gær. Það voru hins vegar heimamenn sem höfðu betur eftir mjög fjörugan síðasta hálftíma leiksins og lokatölur 2-1.

Liðin skiptust á um að eiga góða kafla í fyrri hálfleik en Stólarnir fengu betri færi. Addi Ólafs slapp í gegnum vörn KH en dvaldi of lengi á boltanum en vildi fá víti þegar varnarmaður gestanna kom honum úr jafnvægi. Þá fékk Benni Gröndal gott færi á fjærstöng þegar leið að hálfleik en setti boltann yfir markið. Markalaust í hálfleik.

Tindastólsmenn brettu upp ermar í byrjun síðari hálfleiks og voru klárlega sterkari aðilinn. Á 60. mínútu voru þeir við það að sleppa inn fyrir vörn gestanna en Kristinn Kári fyrirliði KH tók Adda Ólafs niður millimetrum utan teigs. Hann fékk að líta rauða spjaldið, gat lítið við því sagt og tölti af velli. Tindastóll fékk því aukaspyrnu á góðum stað og úr henni var þrumað í vegginn en í kjölfarið lyfti Svend Emil sakleysilegum bolta inn á teiginn en Víðir Jökull, sem hafði staðið fyrir sínu í markinu, misreiknaði boltann illilega. Boltinn boppaði yfir hann og Jónas Aron var snöggur að átta sig, komst í boltann á undan Víði og skóflaði honum í markið.

Þrátt fyrir að vera einum færri gerðust gestirnir nú sókndjarfari, enda til lítils að sitja til baka og verja markið undir í útsláttarkeppni. Þetta þýddi líka að vörn þeirra opnaðist og það var frekar frústrerandi að sjá Stólana klúðra hverri sókninni á fætur annarri. Þeir fengu það enda í hausinn á 85. mínútu þegar gestirnir sóttu víti eftir að Sverrir fyrirliði braut á sóknarmanni KH. Nikola byrjaði á að verja víti frá Luis Carlos Cabrera Solys en dómarateymið taldi að hann hefði verið kominn af línunni og því þurfti að endurtaka vítið. Þá jafnaði Luis leikinn. Stólarnir voru hins vegar eldsnöggir að ná forystunni aftur en á 87. mínútu kom Manuel Martinez Stólunum yfir á ný með frábæru skoti utan teigs í fjærhornið hjá Víði markmanni. Gestirnir áttu fá svör í framhaldinu og Stólarnir því komnir í átta liða úrslit í þessari skemmtilegu bikarkeppni.

Þá þyngist væntanlega róðurinn enda nokkur lið úr 2. deild enn með í keppninni en þar má nefna Selfoss, KFA, Hauka, sterk lið úr 3. deild eru komin áfram en lið Tindastóls er það eina sem komst áfram af liðunum í 4. deild. Dregið verður í átta liða úrslitin á morgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir