Stólarnir höfðu yfirburði gegn Hlíðarendapiltum
Lið Tindastóls tók á móti Hlíðarendapiltum í kvöld á Sauðárkróksvelli í 15. umferð 4. deildar. Stólarnir voru í fjórða sæti deildarinnar með 24 stig fyrir leik en lið KH í sjötta sæti með 20 stig. Ekki var það að sjá á spilamennsku liðanna að þau væru á svipuðum slóðum í deildinni því yfirburðir Tindastóls voru talsverðir og úrslit leiksins, 4-0, fyllilega verðskulduð.
Leikið var við fínar aðstæður á Króknum, veður stillt en pínu svalt í stúkunni. Gestirnir komust varla fram yfir miðju fyrstu tíu mínútur leiksins en Stólarnir fengu sennilega átta hornspyrnu á þeim kafla. Leikmenn KH vörðust þokkalega og heimamenn misstu taktinn þegar leið á fyrri hálfleik enda gekk illa að finna fremstu menn í fætur. Það var þó með ólíkindum að Tindastóll væri ekki komið yfir fyrir hálfleik en þannig var það nú. Staðan 0-0.
Strax á 49. mínútu braut síðan Dom þjálfari Furness ísinn og korteri síðar var hann aftur á ferðinni og mörkin keimlík, kappinn mættur inn á teig á réttum tíma til að skila boltanum í markið eftir fyrirgjafir. Jónas Aron gerði út um leikinn með þriðja marki Tindastóls á 71. mínútu, afgreiddi þá boltann laglega í mark KH eftir fínan undirbúning Jóns Gísla. Konni gerði síðan fjórða markið á fimmtu mínútu uppbótartíma og var þá búinn að klikka í tvígang mínúturnar á undan. Reyndar er alltaf gaman að horfa á Konna spila fótbolta þó ekki sé hann sá fljótasti í bransanum, hann lætur leikinn stundum líta út fyrir að vera ansi auðveldur.
Sem fyrr segir var sigurinn sanngjarn og varla hægt að segja að lið KH hafi skapað sér færi í leiknum. Stólarnir létu boltann oft ganga lipurlega en eins og síðustu sumur þá vantar enn klassíska markamaskínu í liðið. Lið Tindastóls er enn í fjórða sæti 4. deildar, nú með 27 stig. Lið KFK er í þriðja sæti með 30 stig, Árborg í öðru með 31 stig og Vængir Júpíters í góðri stöðu með 35 stig í efsta sæti. Næsti leikur Tindastóls er næstkomandi föstudag en þá mæta strákarnir liði Hamars í Hveragerði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.