Stólarnir gerðu góða ferð á Seltjarnarnesið

Dominic Furness var kátur með frammistöðu sinna manna. MYND: ÓAB
Dominic Furness var kátur með frammistöðu sinna manna. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn gerðu góða ferð suður á Vivaldi-völlinn á Seltjarnarnesi í gær þar sem lið Kríu beið eftir þeim. Eftir tap gegn Knattspyrnufélagi Hlíðarenda í síðustu umferð þurftu Stólarnir að snúa blaðinu við og skunda heim í Skagafjörð með þrjú stig í farteskinu. Það hafðist með góðum 1-2 sigri.

Það var eitt mark gert í fyrri hálfleik og það gerði David Bercedo á 31. mínútu. Hann bætti síðan við öðru marki á 57. mínútu en heimamenn löguðu stöðuna þremur mínútum síðar. Á fyrstu mínútu uppbótartíma fékk Dom þjálfari síðan að líta sitt annað gula spjald en hann hafði komið ínn á á 83. mínútu.

Góð úrslit því staðreynd og á þriðjudag eiga Stólarnir heimaleik gegn Skallagrími en þeim leik var fresta vegna vallaraðstæðna í byrjun maí. Með sigri kæmist lið Tindastóls upp í þriðja sæti deildarinnar en Stólarnir sóttu reyndar ekki gull í greipar Borgnesinga síðasta sumar.

Spenntur að komast loks á heimavöllinn

Feykir hafði samband við Dominic Furness, þjálfara Tindastóls, að leik loknum og byrjaði á að spyrja hann hvort hann væri ánægður með þá leikmenn sem hefðu bæst í hópinn í vor. „Ég er mjög ánægður með alla strákana, vinnuframlag og skuldbindingu. Þessi leikur sýndi þá skuldbindingu sem við þurfum að hafa til að ná árangri. Frá fyrstu flauti til þess síðasta hlupu strákarnir og börðust fyrir hverjum sentimetra.“

Eru leikmenn spenntir fyrir því að spila loksins heima? „Við erum virkilega spenntir fyrir hverjum leik en sérstaklega spenntir að komast á heimvöllinn eftir fjóra leiki á útivelli!“

Skallagrímur í næsta leik - eigum við að gera betur gegn þeim en í fyrra? „Við förum í alla leiki með það hugarfar að vinna, ekkert minna – að ná tökum á leiknum og þvinga okkar vilja upp á andstæðinginn.“

Tvö gul spjöld á þjálfarann í gær​, var það sanngjarnt? „Ég ber miklu virðingu fyrir þeim sem dæma leiki, þetta er ótrúlega erfitt starf, en þeir eru mannlegir og mistök eru gerð. Rétt eins og í Hamarsleiknum þegar við fengum tvær vítaspyrnur á móti sem voru greinilega ekki víti. En þetta er hluti af fótboltanum og lífinu; þetta snýst allt um hvernig við bregðumst við þessum aðstæðum sem munu ákvarða örlög okkar sem leikmenn og menn.“ segir Dominic Furness að lokum.

Þá er bara að krossa fingur og vona að það verði ekki ófært á þriðjudaginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir