Stólarnir áfram í VÍS bikarnum eftir barningsleik gegn Haukum
Tindastóll og Haukar mættust í VÍS bikarnum í Síkinu í kvöld og úr varð spennandi leikur, í það minnsta svona framan af leik. Stólarnir náðu góðum kafla um miðjan þriðja leikhluta og bjuggu sér þá til forskot sem gestunum tókst ekki að vinna niður. Leikurinn var ekki áferðarfallegur, varnir beggja liða voru ágætar en það væri synd að segja að sóknarleikurinn hafi flætt vel. Lokatölur urðu 88-71 fyrir Stólana sem eru þar með komnir í 16 liða úrslit bikarsins þar sem þeir heimsækja Njarðvíkinga.
Ekki vantaði stemninguna í Síkið í kvöld en það vantaði Arnar í lið Tindastóls. Bæði lið skelltu í þrist í sinni fyrstu sókn í kvöld en síðan botnfraus í Síkinu í dágóða stund. Það bráðnaði fyrr undan gestunum og um miðjan leikhlutann voru þeir komnir með tíu stiga forystu, 3-13. Keyshawn og Badmus komu heimamönnum í gang og staðan að loknum leikhlutanum 16-17 fyrir Hauka. Gestirnir voru lengstum hænufetinu á undan í öðrum leikhluta en hittni heimamanna utan 3ja stiga línunna var frekar döpur. Zoran jafnaði leikinn, 28-28, þegar ein og hálf mínúta var til hálfleiks og Pétur kom sínum mönnum yfir, 31-30, stuttu síðar. Eftir líflega síðustu mínútu leiddu Stólarnir í hléi. Staðan 35-33.
Jafnræði var með liðunum til að byrja með í síðari hálfleik. Siggi Þorsteins kom Stólunum í 40-37 þegar tvær mínútur voru liðnar en í kjölfarið fylgdu þrír þristar frá Badmus og Stólarnir skyndilega komnir með tíu stiga forystu. Haukarnir börðust eins og ljón og með Hilmar Hennings í góðum takti þá hengu þeir inni í leiknum. Munurinn yfirleitt 8-12 stig. Keyshawn kláraði þriðja leikhluta með glæsibrag; setti niður ruglþrist eftir að Haukar klikkuðu á tveimur vítum, stal síðan boltanum hinum megin á vellinum og lagðann í körfu gestanna. Staðan 61-48 að loknum þriðja leikhluta og nokkuð ljóst í hvað stefndi.
Haukarnir voru þó ekki af baki dottnir og koma sér á ný inn í leikinn með 0-7 kafla en Badmus sá til þess að nær komust þeir ekki. Þristur frá Zoran slökkti vonir gestanna um miðjan fjórða leikhluta og Vlad fór að leita dýpra á bekkinn. Síðustu mínúturna gladdi að sjá Reyni skella í þrist og Badmus troða með tilþrifum.
Góður 17 stiga sigur því staðreynd og Stólarnir áfram í bikarnum. Það voru Kewshawn, Badmus og Zoran sem drógu vagninn í kvöld þegar kom að stigaskori; Woods mallaði jafnt og þétt allan leikinn og endaði með 27 stig og átta fráköst, Badmus var með 25 stig og sjö fráköst og Zoran var með 18 stig. Drungilas komst aldrei í takt við leikinn sem var frekar óreiðukenndur. Það er hins vegar staðreynd að körfuboltinn er talsvert auðveldari ef skotin rata í körfuna. Það sannaðist í síðari hálfleik.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.