Stólarnir áfram í úrslitarimmuna eftir ótrúlegan leik í Síkinu : UPPFÆRT
Lið Tindastóls og Njarðvíkur mættust í fjórða leiknum í undanúrslitaeinvígi liðanna í troðfullu Síki í kvöld. Einhverjir hafa kannski átt von á spennuleik eftir að Njarðvíkingar unnu öruggan sigur í síðasta leik en leikurinn varð aldrei spennandi. Stólarnir voru yfir frá fyrstu körfu og voru þegar 20 stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta og voru búnir að skora 68 stig þegar fyrri hálfleik lauk. Þá voru Stólarnir búnir að gera helmingi fleiri stig en gestirnir og síðari hálfleikurinn bara til skrauts. Lokatölur 107-76.
Stólarnir höfðu betur í öllum leikhlutum og það eina sem skyggði á gleðina voru meiðsli Arnars sem virtist snúa sig illa í lokafjórðungnum en upp úr sauð í kjölfarið og fimm tæknivíti kölluð af dómurunum. Eftir leik fullyrti Arnar hins vegar að hann yrði klár í slaginn í fyrsta leik í úrslitunum. Nema hvað – það er auðvitað vonlaust partý ef skemmtanastjórinn er ekki á staðnum.
Þá má ekki gleyma því að þjóðargersemin Logi Gunn spilaði sinn síðasta leik í kvöld, hefur dregið strik undir sinn frábæra feril. Það verða kannski ekki margir Síkisbúar sem munu sakna þess að sjá hann setja flautuþrist gegn Stólunum en það verður sjónarsviptir af kappanum. Stuðningsmenn beggja liða sungu nafn hans á lokaandartökum leiksins og að leik loknum – eitthvað sem hann sagðist aldrei eiga eftir gleyma.
Orkustig Stólanna miklu meira en gestanna
Leikurinn þróaðist ekki ólíkt fyrsta leiknum í seríunni þar sem Stólarnir náðu viðlíka forskoti í fyrsta leikhluta og hleyptu þeim grænu aldrei inn í leikinn. Þá náðu Njarðvíingar reyndar að stöðva mestu blæðinguna eftir fyrsta leikhlutann en því var ekki fyrir að fara í kvöld; lið Tindastóls gerði 34 stig í leikhluta eitt og tvö. Gestirnir reyndu að skipta um varnarafbrigði en það var sama hvað þeir reyndu þeir náðu hreinlega aldrei að komast nálægt orkustigi Stólanna og því fór sem fór.
Fjórir leikmenn Tindastóls höfðu gert tíu stig eða meira í hálfleik. Drungilas og Arnar virtust geta kastað nánast hverju sem var í loftið og það lenti í körfunni. Arnar var með sjö þrista í átta tilraunum í fyrri hálfleik og það voru einu skotin sem hann tók í fyrri hálfleik. Að leik loknum komust hann og Svali að því að hann hefði masterað núvitundina inni á vellinum – eða eitthvað. Stigahæstir í liði Stólanna voru Taiwo með 27 stig, Arnar 25, Kewshawn 20, Drungilas 18 og Raggi 10.
Þá er bara spurning hvort það verða Íslandsmeistarar Vals eða fyrrverandi Íslandsmeistarar Þórs úr Þorlákshöfn sem mæta Stólunum í úrslitum. Þetta partý er ekki að fara að klárast alveg strax. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.