Stjörnumenn náðu í stigin í baráttuleik
Ekki tókst Tindastólsmönnum að ljúka fyrri umferðinni í Dominos-deildinni með því að stela tveimur stigum af Stjörnunni en liðin mættust í Mathús Garðabæjar-höllinni í kvöld. Leikurinn var raunar hin besta skemmtun, jafn og spennandi allt til loka en heimamenn höfðu betur, 98-93, og Stólarnir sitja því í áttunda sæti deildarinnar þegar seinni umferðin hefst í vikunni. Ekki alveg staðurinn sem Stólarnir stefndu á en svona er Ísland í dag – endalausir skjálftar.
Stjarnan náði fljúgandi starti og virtust ætla að moka yfir lið Tindastóls. Staðan var 14-2 eftir fjórar og hálfa mínútu en þá kom þristur frá Tomsick og smám saman réttu Stólar úr kútnum. Udras og Glover voru iðnir við kolann og þegar tæp mínúta var eftir jafnaði Brodnik af vítalínunni. Heimamenn voru þó yfir 25-22, þegar annar leikhluti hófst og þar var allt í járnum framan af. Stólarnir náðu góðum kafla um miðjan leikhlutann og komust fimm stigum yfir, 36-41, en pössuðu illa upp á boltann í næstu sóknum og heimamenn gerðu 12 stig í röð. Axel Kára kom með mikið hjarta til leiks og hann henti sér á alla bolta eins og hann ætti þá aleinn og barátta hans náði að smita samherjana sem fundu taktinn á ný. Staðan í hálfleik 50-47.
Tomsick kom Stólunum yfir á ný þegar tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en það eru ansi mörg vopn í búri heimamanna í Mathúshöllinni og þeir voru snöggir að kvitta fyrir sig og náðu yfirhöndinni í leiknum. Tómas Þórður smellti í þrist þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og kom Stjörnunni tíu stigum yfir. Glover svaraði að bragði og hann setti sjö stig á töfluna áður en þriðji leikhluti var úti. Staðan 79-74. Tomsick hóf fjórða leikhlutann með þristi og ekki leið á löngu þar til Glover kom Stólunum stigi yfir, 81-82. Addú svaraði með þristi og enn og aftur náðu heimamenn að svara sterkt góðum kafla Stólanna. Þeir voru yfirleitt þetta fjórum til sjö stigum yfir á lokakaflanum en Glover hleypti spennu í leikinn með þristi þegar um 20 sekúndur voru eftir. Minnkaði muninn í þrjú stig, 96-93, en Mirza fór á vítalínuna þegar fimm sekúndur voru til leiksloka og þar var hann öryggið uppmálað og gulltryggði sigur Garðbæinga.
Sigurinn gat fallið hvorum megin sem var í kvöld en heimamenn reyndust sterkari. Tvo leikhluta vann Stjarnan með þriggja og tveggja stiga mun og tveir leikhlutar enduðu jafnir. Þannig að leikurinn vannst á smáatriðum. Í liði Tindastóls var Shawn Glover stigahæstur með 29 stig og hann tók átta fráköst. Þá var Brodnik öflugur með 25 stig, þar af 12 af vítalínunni, og hann tók sjö fráköst. Tomsick tók bara 18 skot í kvöld og skilaði 18 stigum, Udras byrjaði á bekknum og gerði 11 stig. Heimastrákarnir skutu lítið í leiknum og skiluðu samanlagt aðeins tíu stigum en betur má ef duga skal. Austin Brodeur var stigahæstur í liði Stjörnunnar með 19 stig en fimm leikmenn í liði Garðbæinga gerðu tíu stig eða meira. Þeir tóku 49 fráköst á móti 41 frákasti Stólanna og þar á meðal voru 16 sóknarfráköst sem var blóðugt.
Næsti leikur Tindastóls er á fimmtudag en þá heimsækja strákarnir ÍR-inga í Breiðholtið og hefst leikurinn kl. 18:15. Nú er komin pínu pressa á okkar menn að fara að krækja í sigra. Deildin er skuggalega jöfn og hreint ekki ólíklegt að innbyrðis viðureignir komi til með að skipta miklu þegar talið verður upp úr kössunum. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.