Stefnir í metaðsókn á Landsbankamótið 27. – 28. júní
Landsbankamótið fer fram á Sauðárkróki í tíunda sinn helgina 27. – 28. júní nk. Að mótinu standa knattspyrnudeild Tindastóls, Landsbankinn, foreldrar iðkenda og fjölda sjálfboðaliða. Að sögn Ingva Hrannars Ómarssonar mótsstjóra hefur mótshaldið gengið vel undanfarin ár og markar sú mikla ásókn þá velgengni.
Að jafnaði hafa þátttakendur mótsins verið um 300-500 en í ár eru þeir rétt tæplega 1000 og með hverjum iðkanda má búast við 1-4 aðstandendum.
Aðspurður um hver sé uppskriftin af hinu fullkomna móti svarar Ingvi Hrannar að hún sé gott veður og góður hópur fólks sem hjálpast að við hin ýmsu störf. Þá gangi allt upp.
„Margar hendur vinna létt verk og gott mót gerir það að verkum að við getum áfram haldið úti góðu starfi allt árið og stutt unga fólkið okkar í íþrótta-og tómstundastarfi. Að lokum vil ég óska eftir fólki á öllum aldri, hvort sem það á börn í fótbolta eða ekki, að aðstoða okkur við ýmis störf, oftast svona 2-4 tíma vaktir. Þeir sem hafa tök á því að leggja sitt að mörkum við dómgæslu, að skammta mat, standa vaktir í skólunum við gistingu svo eitthvað sé nefnt.“
Áhugasamir geta haft samband við Ingva Hrannar í síma 660-4684 eða sent tölvupóst á netfangið ingvihrannar@me.com.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.