Stefanía Hermannsdóttir hlaut Minningarbikar um Stefán Guðmundsson og Hrafnhildi Stefánsdóttur

Stefanía með afreksbikar og viðurkenningarskjal. Mynd: PF.
Stefanía með afreksbikar og viðurkenningarskjal. Mynd: PF.

Hin unga frjálsíþróttakona Stefanía Hermannsdóttir á Sauðárkróki fékk á dögunum afhentan minningarbikar um Stefán Guðmundsson fv. stjórnarformann KS og konu hans Hrafnhildi Stefánsdóttur. Um farandbikar er að ræða sem oftast hefur verið veittur samhliða athöfn Menningarsjóðs KS.

Að þessu sinni fór athöfnin fram í aðal húsakynnum Kaupfélagsins undir stjórn Bjarna Maronssonar, stjórnarformanns KS, sem afhenti Stefaníu afreksbikar og fjárstyrk. Í umsögn um afrek Stefaníu segir að hún sé ung frjálsíþróttakona sem æfi hjá frjálsíþróttadeild Tindastóls og keppi undir merkjum UMSS. „Hennar aðal keppnisgreinar eru spjótkast og kringlukast. Stefanía hefur náð bestum árangri í spjótkasti og er orðin einn besti spjótkastari landsins þó hún sé enn ung. Hún setti til að mynda glæsilegt héraðsmet í sínum aldursflokki síðasta sumar með kasti upp á 41,75 metra.
Hún varð í öðru sæti bæði í kringlukasti og spjótkasti á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í júní á liðnu ári. Nú í desembermánuði var Stefanía svo valin í landsliðshóp FRÍ eftir árangur sumarsins.“
Þó aðalgreinar Stefaníu séu spjótkast og kringlukast þá hefur hún æft og keppt í kúluvarpi en segist hafa dregið sig pínu frá því. Eins og að framan greinir hefur henni vegnað vel á keppnisvellinum en segist verða sáttari með meiri bætingar og stefnir hún á það í sumar.
„Ég hef ekki keppt í vetur, keppi aðallega utan húss á sumrin. Á veturna æfi ég með því að styrkja mig, tek af og til kastæfingar en er aðallega að styrkja,“ segir Stefanía sem að sjálfsögðu stefnir á að kasta lengra á komandi keppnistímabili. Hennar stærsta markmiðið er náttúrulega að komast á Ólympíuleikana einhvern daginn en hún komst með árangri sínum í landsliðshópinn fyrir þetta ár.

En það er fleira en íþróttir sem verið er að stunda því hún nemur rafvirkjun í FNV. 
„Það gengur bara mjög vel. Fín kennsla og aðeins fjölbreyttara en að vera bara í bóklega náminu á stúdentsbrautinni. Ekki alveg búin að ákveða framhaldið en hef áhuga á rafeindafræðinni og stefni líklega í þá átt.“

Fyrir þau sem ekki koma Stefaníu fyrir sig gæti hjálpað að nefna foreldrana en þau eru Hermann Einarsson, stýrimaður, og Kolbrún Þórðardóttir, kennari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir